Lindargata Nýting hefur farið yfir 100% í níu mánuði af tólf þessa árs.
Lindargata Nýting hefur farið yfir 100% í níu mánuði af tólf þessa árs. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kuldatíðin að undanförnu hefur beint athygli Íslendinga að málefnum heimilislausra og sér þess stað á samfélagsmiðlum. Neyðarskýli fyrir karla á Lindargötu og Grandagarði eru að jafnaði lokuð frá 10-17 á daginn og gestir skýlanna því á götunni yfir daginn í öllum veðrum

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Kuldatíðin að undanförnu hefur beint athygli Íslendinga að málefnum heimilislausra og sér þess stað á samfélagsmiðlum. Neyðarskýli fyrir karla á Lindargötu og Grandagarði eru að jafnaði lokuð frá 10-17 á daginn og gestir skýlanna því á götunni yfir daginn í öllum veðrum. Neyðaráætlun var sett í gang 19. desember á fundi neyðarstjórnar velferðarsviðs. Ástæðan var að spáð var fádæma frosthörkum seinni hluta mánaðarins og var ákveðið að neyðarskýlin yrðu opin allan daginn fram til 28. desember. Deildarstjóri málaflokks heimilislausra sendir út upplýsingar til allra forstöðumanna skýlanna, bráðamóttöku Landspítala, lögreglu, Rauða krossins og forsvarsmanna tjaldsvæða.

Kostnaður tvöfaldast

Hins vegar er málið flóknara en svo að það nægi að hafa skýlin opin allan sólarhringinn. Í fyrsta lagi henta skýlin misvel til slíkrar opnunar vegna skorts á starfsfólki og aðstæðum í hverju skýli. Á fundi velferðarráðs 21. desember var lagt fram minnisblað þar sem lagt var til að gistiskýlið á Lindargötu yrði opið yfir daginn. Þar er aðstaða betri en á Grandagarði og kaffistofan getur tekið við þeim fjölda sem dvelur í neyðarskýlinu að Grandagarði. Þetta væri þó bráðabirgðaúrræði þar til hægt væri að finna varanlegri lausnir fyrir gesti neyðarskýla karla. Ástandið er betra í Konukoti, þar sem eftirspurnin hefur ekki vaxið jafnmikið.

Ásókn heimilislausra, með miklar og flóknar þjónustuþarfir, að neyðarskýlum hefur aukist gífurlega að undanförnu. Því hefur rekstrarkostnaður meira en tvöfaldast frá 2018. Aðsóknin í neyðarskýli karla er þannig að flesta mánuði ársins er farið langt yfir 100% þjónustugetu skýlanna. Mikið hefur mætt á starfsfólki sem borgin hættir á að missa frá sér vegna þessa.

Langt yfir 100% nýting

Nýtingarhlutfallið á Lindargötu og Grandagarði var á milli 110-120% í mars- og aprílmánuði í ár. Við slíkar aðstæður er erfitt að tryggja öryggi gesta og starfsfólks, eins og sjá mátti á fleiri atvikaskráningum og var samþykkt fjárheimild fyrir einu viðbótarstöðugildi á báðum neyðarskýlunum út árið vegna þessa. Aðsókn jókst enn meira með sumrinu og í ágúst var nýtingin 146% í Grandagarði og 117% á Lindargötu. Þá var samþykkt á fundi velferðarráðs að komið yrði á neyðarhúsnæði fyrir 6-8 heimilislausa karla. Afgreiðslu tillögunnar var frestað og síðan vísað til fjárhagsáætlunargerðar 2. nóvember sl.

Í minnisblaðinu segir að þetta verkefni sé orðið of stórt til að borgin geti sinnt því án aðkomu eða fjárhagsstuðnings ríkis, annarra sveitarfélaga eða hjálparstofnana. Nauðsynlegt sé að finna lausnir á vandanum.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir