Albert Eiríksson, matarbloggari og aðstoðarskólastjóri, á alltaf kökudeig í ísskápnum.
Hvað kemur þér í jólaskap?
Ljúf og þægileg jólalög, en það er samt ágætt að byrja ekki of snemma að hlusta á jólalögin. Alla aðventuna er jólalagalistinn á Spotify uppfærður og betrumbættur eins og hægt er. Smákökubaksturinn er stór hluti af jólastemningunni. Þótt tegundum hjá okkur hafi fækkað með árunum þá er alltaf notalegt að baka. Við eigum oftast nokkrar tegundir af smákökudeigi í ísskápnum, rúllað upp í lengjur. Köllum þetta jóladrjóla. Þægilegt að skera niður og baka ef einhver „rekur inn nefið“.
Hver eru eftirminnilegustu jólin?
Jólin á Kanarí aldamótaárið eru okkar eftirminnilegustu jól. Við vorum mjög vel undirbúnir til að halda alvöru íslensk jól í sólinni og hitanum. Tókum með okkur hangikjöt, grænar baunir, malt og appelsín, jólaseríu og síðast en ekki síst útvarpsmessuna á kassettu – meira að segja þögnin á undan bjölluslættinum klukkan 18 var tekin upp. Þrátt fyrir að leggja okkur alla fram náðist ekki að taka stemninguna með okkur. Það er svo margt sem gerir stemninguna eins og við þekkjum hana best; kuldinn, myrkrið og asinn svo eitthvað sé nefnt. Sagan um þessi „rammíslensku jól“ okkar á Kanarí hefur glatt marga vini okkar og er reglulega rifjuð upp.
Hver er sniðugasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Prumputæki með fjarstýringu. Gefandinn rifjar stoltur upp að þetta var eitt það fyrsta sem hann pantaði á netinu, það er svo langt síðan. Prumputækið er hið vandaðasta og er enn í góðu lagi. Börn sem koma í heimsókn nota það óspart og það vekur alltaf mikla kátínu hjá ungum sem öldnum.
Hvernig verða jólin í ár?
Hefðbundið jólahald eins og hægt er, hvíld og notalegheit. Hjá okkur er hefðin að það þarf ekki að vera það sama í matinn ár eftir ár. Núna fengum við að gjöf vænt heimareykt læri af feitum sauð og ætlum að njóta þess ásamt fleira góðgæti um hátíðina.
Albert Eiríksson