Ný útlán bankakerfisins til heimila í nóvember námu tæplega 12,5 milljörðum króna, að frádregnum uppgreiðslum, og drógust lítillega saman á milli mánaða samkvæmt hagtölum Seðlabankans um bankakerfið.
Þar af námu fasteignalán um 8,3 milljörðum króna og bílalán um 2,6 milljörðum króna. Af fasteignalánum námu óverðtryggð lán aðeins um 1,1 milljarði króna, að meginþorranum til með breytilegum vöxtum. Verðtryggð fasteignalán námu hins vegar 7,2 milljörðum króna. Megnið af óverðtryggðum lánum til heimila í nóvember var vegna bílalána, eða rúmir 2,5 milljarðar króna.
Þetta er í takt við fyrri mánuði, þar sem umfang óverðtryggðra lána hefur minnkað. Ný útlán til heimila hafa dregist verulega saman á liðnum mánuðum, sem ætla má að séu afleiðingar af hækkandi stýrivöxtum Seðlabankans.
Útlán til heimila nema, það sem af er ári, um 191 milljarði króna. Þar af nema óverðtryggð lán um 160 milljörðum króna, að mestu á föstum vöxtum. Á sama tíma í fyrra námu þau um 314 milljörðum króna.
Samtals námu ný útlán um 44,8 milljörðum króna í nóvember. Þar af námu lán til fyrirtækja um 22,6 milljörðum. Megnið af því, eða um 10 milljarðar, var vegna lána til fasteignafélaga.