Helgileikur Sr. Guðmundur Örn meðal barna í kirkjunni við fallega athöfn sem þar var haldin um síðustu helgi.
Helgileikur Sr. Guðmundur Örn meðal barna í kirkjunni við fallega athöfn sem þar var haldin um síðustu helgi. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hátíðleikinn er alveg sá sami hvert sem komið er um jól. Allir reyna að gera sér dagamun

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Kirkjan skiptir Eyjafólk miklu máli og safnaðarstarfið er öflugt, ekki síst fyrir jólin,“ segir sr. Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur við Landakirkju í Vestmannaeyjum. Þar hafa verið guðsþjónustur og ýmsar samkomur nú á aðventunni. Tengslin við samfélagið eru sterk og í því sambandi má meðal annars nefna heimsóknir nemenda úr yngstu bekkjum Grunnskóla Vestmannaeyja í kirkjuna nú á aðventunni. Við messu um síðustu helgi færðu nemendur úr 5. bekk upp helgileik í kirkjunni, þar sem fæðing frelsarans var frásagnarefni.

Stærsta frétt allra tíma

Svo bar til um þessar mundir, segir í jólaguðspjalli Lúkasar. Allir þekkja söguna sem gerðist á Betlehemsvöllum fyrir 2022 árum, atburður sem er stærsta frétt allra tíma hingað til.

„Já, sagan er mögnuð,“ segir Guðmundur Örn. „Kjarninn er einfaldlega sá að Guð gerðist maður sem lítið saklaust barn sem okkur mannfólkinu var falið að annast. Og þarna virkar traustið til beggja átta; okkur er treyst fyrir barninu en við verðum aftur að treysta barninu. Svo er líka mikil fegurð í þeirri sögu að hinir fyrstu sem bar að eftir að hafa hlustað á skilaboð englakórsins og sáu barnið voru fjárhirðar; fátækastir allra manna. Á eftir þeim komu svo vitringarnir, sem voru ríkari en flestir aðrir. Slíkt segir að Jesús er allra.“

Sameiningarkrafturinn birtist

Sr. Guðmundur Örn er tilbúinn með ræðurnar fyrir messuhald jólanna. Þær annast hann með sr. Viðari Stefánssyni, en þeir tveir eru prestar Landakirkju. Þar hefst helgihald dagsins kl. 14 með helgistund í kirkjugarðinum. Svo eru guðsþjónustur dagsins tvær; aftansöngur klukkan 18 þar sem jólin eru hringd inn og svo miðnæturmessa kl. 23.30. Á jóladag er messa kl. 14 og á öðrum degi jóla er helgistund á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum. – Þá eru hjá Eyjaprestum bókaðar minnst fimm skírnarathafnir nú um hátíðarnar, sem verða í heimahúsum og í Landakirkju.

„Hátíðleikinn er eins, alveg sama hvert er komið um jól. Allir reyna að gera sér dagamun, hver sem staða fólks er. Sameiningarkrafturinn birtist í því að fólk vill gleðjast og óskandi væri að fólk héldi þá út aðeins lengur en bara yfir jólin að hafa frið og fögnuð í hjarta. Á jólunum kemur annars vel í ljós og sannreynist hvað skiptir máli; það er staða náungans í samfélaginu og að enginn ætti að gleymast. Hér í Vestmannaeyjum er eins og annars staðar fólk sem er eitt, sem getur verið af ýmsum ástæðum. Samt veit ég að á aðfangadagskvöld á þetta fólk yfirleitt vinum að mæta og er boðið í heimsókn til vinafólks. Í sumum tilvikum tekur þar hver kynslóðin við af annarri í gestgjafahlutverki gagnvart þeim sem ein eru. Þetta finnst mér bæði fallegt og dýrmætt.“

Sjóferðabæn og fallegur siður

Sextán ár eru síðan sr. Guðmundur Örn kom til starfa í Vestmannaeyjum. Strax á upphafsdögum sínum í starfi segist hann hafa reynt hvað kirkjan og starf hennar sé mikilvægt fyrir samfélagið í Eyjum og hlutverk hennar stórt. „Lendi fólk hér í einhverjum vanda andlega höfum við hér ekki sama aðgengi að til dæmis geðlæknum og sálfræðingum og sums staðar annars staðar. Því er hefð fyrir því meðal Eyjafólks þegar slík mál koma upp að byrja á því að leita til okkar prestanna. Vissulega getum við ekki leyst allan vanda þessa fólks en vonandi komið einhverju góðu til leiðar, ef svo ber við, og stundum veitt þá hjálp sem dugar,“ segir presturinn sem þykir trúarvitund Eyjafólks sterk:„Hafinu fylgja hættur og margir leita því styrks í trúnni. Hér tíðkast líka, þegar ný skip koma í Eyjaflotann, að þar er jafnan settur upp platti með hinni þekktu sjóferðabæn sr. Odds V. Gíslasonar. Slíkt gerist við athöfn sem við prestarnir hér komum að. Vissulega er ekki lengur farið með sjóferðabæn í upphafi hverrar sjóferðar eins og áður tíðkaðist. Þó veit ég að margir skipstjórar bregða fingri á plattann og strjúka létt þegar haldið er frá bryggju. Telja að slíkt viti á gott – sem er fallegur, dýrmætur siður.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson