Kýrnar búa yfir margvíslegum mætti. Nú skoða vísindamenn hvort nota megi slefið úr þeim til að verjast kynsjúkdómum. Smokkurinn heldur þó enn velli.
Kýrnar búa yfir margvíslegum mætti. Nú skoða vísindamenn hvort nota megi slefið úr þeim til að verjast kynsjúkdómum. Smokkurinn heldur þó enn velli. — AFP/Aris Messinis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
París. AFP. | Dýraríkið veitir iðulega óvæntan innblástur í vísindum. „Náttúran hefur varið mörg hundruð milljón árum í að fullkomna fágaðar lausnir á sérlega flóknum vandamálum,“ sagði Alon Gorodetsky, heilbrigðisverkfræðingur við Kaliforníuháskóla í Irvine, við AFP

París. AFP. | Dýraríkið veitir iðulega óvæntan innblástur í vísindum. „Náttúran hefur varið mörg hundruð milljón árum í að fullkomna fágaðar lausnir á sérlega flóknum vandamálum,“ sagði Alon Gorodetsky, heilbrigðisverkfræðingur við Kaliforníuháskóla í Irvine, við AFP. „Þannig að með því að horfa til náttúrunnar getum við stytt okkur leið í þróun og fundið dýrmætar lausnir hratt og örugglega.“

Hér er listi yfir nokkur dæmi frá þessu ári um að náttúran hafi veitt innblástur, allt frá slefi kúa til húðarinnar á smokkfiskum.

Okrugel fyrir blæðandi hjörtu

Verið getur að hægt verði að stoppa blæðingar í hjörtum og lifrum hunda og kanína án þess að sauma með því að nota lífrænt gifs, sem búið er til úr geli úr okru, sem er hávaxin jurt af stokkrósaætt, en belgirnir eru notaðir til matar. Áferð belgjanna er slímkennd og fékk Malcolm Xing við Manitoba-háskóla þá hugmynd að nota jurtina til lækninga. Í júlí birtist grein um rannsókn hans í tímaritinu Advanced Healthcare Materials. Með því að mauka okra og þurrka verður til duft, sem er hægt að nota sem lífrænt lím. Efnið myndar nokkurs konar vegg og kemur blóðstorknun af stað. Fyrirhugað er að prófa efnið á mönnum á næstu árum.

Smyrsl úr kúaslefi

Rannsókn á tilraunastofu sýnir að slef úr kúm gæti nýst til að stöðva útbreiðslu ákveðinna kynsjúkdóma. Greint var frá rannsókninni í tímaritinu Advanced Science í september. Efnið hefur ekki verið prófað á mönnum og var tekið fram að það myndi ekki koma í staðinn fyrir hefðbundnar varnir á borð við smokka.

Eldfluguróbótar

Eldflugur sem lýsa upp nóttina urðu vísindamönnum við Massachusetts Institute of Technology innblástur til að búa til litla róbóta á stærð við hunangsflugur, sem gefa frá sér ljós þegar þeir fljúga.

Vonast er til þess að þessi fljúgandi vélskordýr geti einhvern tímann í framtíðinni hjálpað til í leitar- og björgunaraðgerðum, en enn sem komið er hafa þau ekki hætt sér út úr rannsóknarstofunni.

Maurar sem þefa uppi krabbamein

Talið er að maurar í heiminum séu þúsund milljón milljónir og tegundirnar eru margar. Vísindamenn hafa fundið eina tegund sem verið getur að geti þefað uppi krabbamein. Vísindamenn við Sorbonne Paris Nord-háskóla gerðu rannsókn á maurunum, sem birt var á forútgáfuvefþjóninum bioRxiv. Maurarnir voru látnir greina á milli músaþvags, sem ýmist hafði verið blandað í æxlisfrumum úr mönnum eða var óblandað. Var músunum umbunað með sykurlausn.

Hægt er að þjálfa þefskyn hunda til að greina krabbamein, en það er dýrt og tímafrekt. Þessi aðferð gæti verið fljótlegri, þótt hún sé kannski ekki geðslegri.

Smokkfiskahúð heldur heitu

Undarleg húð smokkfiska kveikti hugmynd að efni, sem nota má til að halda kaffi og mat heitum í stuttan eða skamman tíma. Greint var frá þessu í Nature Sustainability í mars.

Í smokkfiskum eru litfrumur, sem geta breytt um stærð svo um munar og einnig skipt litum.

Alon Gorodetsky við Kaliforníuháskóla í Irvine sagði að tekist hefði að þróa efni úr litlum málmeiningum, sem geta þanist út eða skroppið saman.

„Ef það er sett utan um eitthvað heitt – til dæmis kaffibolla eða heita samloku – er hægt að stjórna hversu hratt það kólnar,“ sagði hann. „Í náttúrunni er í raun að finna fullkomnun nýsköpunar og verkfræði.“