Annríki Starfsmaður í vöruhúsi Amazon í Georgíu undirbýr sendingu dagsins.
Annríki Starfsmaður í vöruhúsi Amazon í Georgíu undirbýr sendingu dagsins.
Nýjustu tölur benda til þess að Bandaríkjamenn hafi verið neysluglaðir þessi jólin. Greiðslukortafyrirtækið Mastercard birti á sunnudag kortaveltutölur tímabilsins frá 1. nóvember til 24. desember og mælist aukningin 7,6% frá sama tímabili í fyrra

Nýjustu tölur benda til þess að Bandaríkjamenn hafi verið neysluglaðir þessi jólin. Greiðslukortafyrirtækið Mastercard birti á sunnudag kortaveltutölur tímabilsins frá 1. nóvember til 24. desember og mælist aukningin 7,6% frá sama tímabili í fyrra. Er þetta nokkuð umfram fyrri spá Mastercard sem gerði ráð fyrir 7,1% aukningu á milli ára.

Þó að bandarískar verslanir geti vel við unað þá jókst jólaverslunin hlutfallslega minna í ár en í fyrra þegar aukningin mældist 8,5%. Reuters greinir frá þessu og segir að verðbólga, hækkandi vextir og hætta á yfirvofandi efnahagssamdrætti hafi orðið þess valdandi að neytendur gættu meira hófs við jólainnkaupin en þeir hefðu annars gert. Hins vegar hjálpaði það til að ýta sölutölunum upp að stórverslanir á borð við Amazon og Walmart buðu upp á rausnarlega afslætti í aðdraganda jóla til að losa sig við uppsafnaðar birgðir af ákveðnum vöruflokkum.

Borið saman við síðasta ár jókst kortavelta hjá fataverslunum um 4,4% og hjá veitingastöðum um 15,1%. Þá mældi Mastercard 10,6% meiri veltu hjá netverslunum í jólavertíðinni þetta árið. Hins vegar varð 5,3% samdráttur í raftækjakaupum. ai@mbl.is