Nokkur umræða hefur orðið um frí opinberra stofnana um jólin en dæmi eru um að slíkar stofnanir loki alfarið á milli jóla og nýárs með tilheyrandi viðbótarfrídögum fyrir starfsmenn og má nefna Hagstofuna og Menntamálastofnun í þessu sambandi.
Eins og fram hefur komið í viðbrögðum ráðherra eru þetta umdeilanlegar ákvarðanir hjá þeim sem leiða stofnanirnar, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og vekur til að mynda spurningar um það hvort endurskoða þurfi fjárheimildir þeirra, auk þess sem slík viðbótarfrí hjá hinu opinbera hljóta að flækja kjarasamningaviðræður og samanburð á milli opinbera geirans og hins almenna markaðar.
Í þessu sambandi var athyglisverð umræða og bókanir á síðasta fundi borgarstjórnar fyrir jól. Vinstri meirihlutinn lagði það til að fyrsti fundur næsta árs skyldi falla niður, en hann var á dagskrá þriðjudaginn 3. janúar. Til að þetta næði fram að ganga þurfti algera samstöðu í borgarstjórn, en þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þau Kjartan Magnússon, Þorkell Sigurlaugsson og Jórunn Pála Jónasdóttir, vildu að fundurinn yrði haldinn og bókuðu: „Vandséð er að virða þurfi borgarfulltrúum það til vorkunnar, þótt þeir mæti til vinnu þriðjudaginn 3. janúar eins og annað launafólk.“
Þessi bókun fór öfugt ofan í meirihlutann sem andmælti því að fulltrúar hans vorkenndu sér að mæta á fund 3. janúar, en sagði tillöguna um að fella fundinn niður taka „mið af starfsaðstæðum þess starfsfólks sem undirbýr borgarstjórnarfundinn. Að jafnaði tekur um tvo daga að undirbúa borgarstjórnarfund enda þarf að senda út gögn fundarins með tveggja daga fyrirvara. Með þessari ákvörðun er reynt að horfa til þess að sú undirbúningsvinna lendi ekki á rauðum dögum eða inni í jólafríum.“ Að auki taldi meirihlutinn bókun fulltrúa minnihlutans vera Sjálfstæðisflokknum til minnkunar en fulltrúarnir þrír bókuðu á móti að enginn starfsmaður borgarinnar hefði óskað eftir að fá fundinn færðan, aðeins borgarfulltrúar.
Það vantaði sem sagt ekkert upp á jólaandann á aðventunni í borgarstjórn, en hvort sem það var nú vinnuleti eða ef til vill tilraun til að forðast umræður, eins og meirihlutinn hefur ítrekað orðið uppvís að, eða ekki, er röksemdafærsla meirihlutans umhugsunarverð. Á milli jóla og nýárs eru fjórir vinnudagar og frá borgarstjórnarfundinum og fram að jólum voru þrír vinnudagar. Þá er einn vinnudagur eftir áramót, fyrir borgarstjórnarfundinn. Það var sem sagt nægur tími til að undirbúa fundinn ef það tekur tvo daga eins og segir í bókun meirihlutans, nema borgarkerfið hafi allt meira og minna átt að fara í frí á milli jóla og nýárs, og jafnvel fram á nýtt ár. Getur verið að það hafi verið ætlunin? Er allt í svo góðu horfi hjá borginni að það sé mögulegt?