Lítið forspjall
Biblían er grundvallarrit kristinnar trúar og reyndar gyðingdóms einnig. Margar sögur hennar er líka að finna í Kóraninum, helsta trúarriti múslíma, þótt sagan sé ekki sögð á sama hátt þar. Hún mun vera mest útgefna bók í sögunni. Hún hefur verið þýdd á flest tungumál heimsins. Hana er að finna á hótelum, í fangelsum og á sjúkrahúsum um allan hinn vestræna heim að minnsta kosti. Sjálfur hef ég rekist á Biblíuna í skúffum og skápum bæði í Þýskalandi, Ítalíu, Ísrael, Suður-Kóreu, Laos og Bútan. Biblían er til á mörgum heimilum hér á Íslandi og var til skamms tíma til á þeim flestöllum. Nýja testamentið ratar inn á mörg heimili á hverju ári þegar Gídeonsmenn gefa fermingarbörnum eintak. Sjálfur á ég eitthvað um fjörutíu Biblíur hvaðanæva úr heiminum á 36 tungumálum sem ég hef safnað gegnum árin. Biblíurnar hef ég eignast á flakki mínu um heiminn og sumar hef ég fengið að gjöf eftir að vinir og ættingjar fréttu af þessu safni mínu. Biblíurnar eru hver annarri glæsilegri og sýna mér hversu mikils menn meta þessa bók hvar sem er á kringlu heimsins, en líka hvernig menning hvers útgefanda fær að njóta sín í bókunum sem gjarnan eru skreyttar og merktar að hætti heimamanna á hverjum stað. Biblíuútgáfan undirstrikar líka sjálfstæði og reisn þeirra sem að útgáfunni stóðu. Sem dæmi má nefna norðursamísku Biblíuna sem kom út í fyrsta sinn árið 2020 og ég eignaðist þá. Hún er skreytt hinni rísandi sól á kápu og tvinnar þannig saman sögu Biblíunnar og sjálfstæðisbaráttu Sama.
Þannig hefur Biblían alltaf líka verið pólitísk eins og við eigum eftir að sjá betur hér. Pólitík er komið af gríska orðinu polis sem merkir borgríki eða borg. Pólitík er þannig allt sem snertir ríkið. Og það gerir Biblían svo sannarlega líka.
En þótt Biblían sé svona þekkt og hafi verið gefin út í svona mörgum eintökum og sé til á mörgum heimilum og tölfræðilega líka heima hjá þér eða foreldrum þínum eða afa og ömmu, þá finnst mörgum okkar af einhverjum ástæðum erfitt að taka hana niður úr hillunni eða upp úr kassanum eða skúffunni og lesa hana. Og þótt við gerum það og opnum hana, blöðum við mörg oft hratt í gegnum hana og skiljum hvorki upp né niður. Mörgum okkar finnst hún óskiljanleg! Enda er erfitt að átta sig á hvernig best er að fletta upp í þessari undarlegu bók, átta sig á henni og skilja hana. Og er hún ekki bara hundleiðinleg líka? Ekkert nema helgislepja og gömul hjátrú og galdrasögur og úrelt boð og bönn? Ekkert sem kemur mér við? Eða þér? Algerlega úrelt!
Eða hvað?
Ég hef reyndar þá kenningu að það sé ekkert svo erfitt að lesa hana. Það er að minnsta kosti mín reynsla. Ég held einmitt að af því að svo margir segja að þetta sé flókin og illskiljanleg bók, án þess endilega að hafa lesið hana, leggi margir ekki í hana. Allt of oft nálgumst við hana líka með fordómum og gefum henni ekki tækifæri. En ef okkur tekst að brjóta okkur leið inn í hana og opna glugga að veröld hennar, þá launar hún okkur með því að opna sjálf glugga í allar áttir inn í menningarheima og sögur og frásagnir sem við vissum varla að væru til.
Það sem fékk mig til að opna augun fyrir Biblíunni og gefa henni tækifæri var reyndar hvernig kennari minn í guðfræðideild Háskóla Íslands, prófessor Þórir Kr. Þórðarson, hjálpaði mér að skilja eigin fordóma gagnvart henni. Það var árið 1983. Þannig var að þegar ég hóf nám á sínum tíma í guðfræði var það með hálfum huga. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á sögu og það var eiginlega þess vegna sem ég fór í þetta nám – sagan, kirkjusagan, sagnfæðin og saga trúarbragðanna, heillaði mig. Ég hafði þá þegar setið nokkur ár í sagnfræði við Háskóla Íslands. Biblían fannst mér aftur á móti frekar úrelt fyrirbæri, gamaldags og undarlegt og erfitt að nálgast og fá botn í það. En fyrsta haustið mitt í náminu byrjaði ég á námskeiði um Gamla testamentið og það var prófessor Þórir sem hélt utan um það. Fyrsta verkefnið sem við nemendurnir fengum var að lesa í beit á sjö dögum alla Genesis, Fyrstu Mósebók, og skrifa svo ritgerð um hvað okkur þætti um hana.
Ég gerði það af heilagri vandlætingu
Genesis segir frá sköpun heimsins á sjö dögum, Adam og Evu, Eden og Nóa sem varð mörg hundruð ára og Nóaflóðinu og eiginkonu Abrahams sem eignaðist barn á gamals aldri og allskonar stórfurðulegum hlutum af því tagi. Svo ég tók mig til, settist niður og skrifaði, að því er mér fannst, leiftrandi gagnrýni á allt þetta rugl. Hvernig er hægt að taka mark á þessu, skrifaði ég, Sköpunarsögunni og að Guð hafi skapað Adam og Evu og Nóaflóðinu og öllu þessu?
Ánægður með sjálfan mig kvittaði ég undir, sannfærður um að ég myndi fá núll og skít og skömm fyrir ritgerðina. Með því ákvað ég að hætta í þessu námi, láta þetta verða mitt síðasta orð og gera svo eitthvað skynsamlegra við líf mitt.
En prófessor Þórir Kr. breytti öllum þessum áætlunum mínum. Hann gaf mér nefnilega 10 fyrir ritgerðina og skrifaði svo undir: „Láttu ekki neinn taka frá þér þessa gagnrýnu hugsun þína og nýttu hana til að komast til botns í því sem þessir textar vilja segja í raun og veru.“ Ég man að ég var alveg orðlaus. Hvað var maðurinn að meina? Hvað hafa þessir textar að segja? Það sem af er ævinni hefur svo farið í að leita að svarinu við þessari spurningu.
Auðvitað er þetta gamall texti, undarlegur og torskilinn, sérstaklega ef maður þekkir ekki samhengið. En þess vegna hef ég einmitt tekið saman þessa bók, Allt sem þú vilt vita um Biblíuna. Þetta er bók sem segir frá því hvernig Biblían er samansett, hvernig textar hennar urðu til og hvernig best er að átta sig á boðskap hennar, gerð og samhengi. Þess vegna er undirtitillinn „Höfundar, saga, umhverf i og áhrif mest seldu bókar sögunnar“. Til þess að skilja Biblíuna verður maður að þekkja söguna, hvernig Biblían varð til og hvaða þjóðir og menningarheimar settu mark sitt á hana. Þess vegna ferðumst við hér saman gegnum árþúsundin. Allt frá hinum elstu menningarþjóðum frjósama hálfmánans og til þeirra sem túlka Biblíuna í dag. Þessi handbók er eins og leiðsögubók fyrir ferðamenn sem ætla sér að skreppa til framandi landa. Handbók ferðamannsins leiðir þig í sannleikann um landið sem þú ætlar að heimsækja, hverjir búa þar, sögu þess og menningu, hvaða helstu tíu staðir eru ómissandi fyrir ferðamanninn, hvar best er að borða og gista og svo framvegis. Ferðahandbækur eru góðar þegar staður er heimsóttur í fyrsta sinn. En þegar maður kemur þangað oftar er líka hægt að kafa betur undir yfirborðið. Þá kynnist maður viðkomandi stað eða borg eða landi líka betur. Og þá getur maður skilið ferðahandbókina eftir heima. Eftir því sem maður heimsækir hinn „framandi“ stað oftar verður hann sífellt meira eins og manns annað heimili og maður fer að rata um hann blindandi. Þannig er það til dæmis með mig og Rómaborg. Ég kom fyrst til Rómar árið 1993 og rataði varla út frá járnbrautarstöðinni sem ég kom til með lest frá flugvell inum um miðja nótt. Og ekki skildi ég ítölskuna. Mér fannst þetta ömurleg og ruglingsleg borg. Síðan hef ég komið meira en 30 sinnum til borgarinnar, dvalið þar bæði stutt og lengi, einn og með hópum og sem leiðsögumaður. Og nú elska ég borgina, á þaðan fullt af ógleymanlegum minningum, þekki flesta sögustaði hennar, á mér uppáhalds veitingahús og kirkju og gosbrunn og kaffihús og heyri hana tala til mín í sögum sínum, rústum, listaverkum, mannfólkinu, tónlistinni, matnum – endalaust. Þess vegna læri ég alltaf eitthvað nýtt þegar ég kem til Rómar. Hún hættir aldrei að koma mér á óvart.
Eins er það með Biblíuna. Sjálfur man ég ekki hvenær ég byrjaði að lesa í Biblíunni. Líklegast hefur fyrsti lesturinn verið í gegnum foreldra mína. Mér hefur verið sagt að á meðan pabbi, sem var prestur, var að taka próf í grísku í háskólanum og í ritskýringu guðspjallanna á því ágæta tungumáli hafi hann haft mig sem kornabarn á hnénu eða liggjandi í vöggu við hliðina á skrifborðinu sínu. Mamma var þá vinnandi fyrir okkur feðgunum allan daginn í mjólkurbúð á meðan við höfðum það náðugt með grískunni og síðar hebreskunni. Kannski hefur eitthvað af grískunni og hebreskunni og guðspjöllunum síast inn þar sem ég lá og hjalaði hjá pabba. Seinna tók mamma við og las fyrir mig myndskreyttu Biblíuna, sem mér fannst reyndar oft nokkuð óhugguleg. Á unglingsárunum hafnaði ég Biblíunni og leit á hana sem skáldskap og kúgunartæki kirkjunnar og auðvaldsins og í raun algert rugl, eins og ég sagði frá hérna í upphafi. Enda var ég byltingarsinnaður eins og margir hafa verið á sínum yngri árum.
En Biblían hefur sem sagt alltaf verið einhverstaðar innan seilingar í mínu lífi og kannski er ástæðan fyrir því að ég réðst í að skrifa þá bók sem hér fylgir brennandi áhugi minn á Biblíunni. […]