Á Boðnarmiði segir Davíð Hjálmar Haraldsson: „Málið í hnotskurn“:
Reykjanesbraut var lengi lokuð
af því að hún var ekki mokuð.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson:
Snjórinn gjarnan hauðrið hylur
af því að það er ofanbylur.
Tobbo Thor:
Sigurður Ingi segist ætla að sjá um málið
sjálfur mun hann brýna stálið.
Höskuldur Búi Jónsson:
Þarna kom víst vetrarveður,
stundum þannig skítur skeður.
Höskuldur Búi Jónsson:
Þegar kemur vondur vetur,
út að ferðast enginn getur.
Bragi Þór Thoroddsen:
Sigurður Ingi, ók þar í hringi
– lengi, lengi, lengi.
Sigurbjörn Árni Arngrímsson:
Vegagerð og veðurstofa
í framtíð veðri fögru lofa.
Jóhann Björn Ævarsson:
Ásmundur sem ók frá þingi,
ekkert kemst sá refur slyngi.
Helgi Ingólfsson:
Stjórnvöld fleiri stýrihópa vilja stofna.
Alþýðan mun ánægð sofna.
Hallmundur Kristinsson yrkir og segir: „Mokið, mokið og mokið“:
Ennþá hefur aftur hvesst,
auki færst í rokurnar.
Er þá ekki bara best
að banna vegalokurnar?
Við þurfum svo sem ekki að elta
ólar við þessar kviður.
Fleiri rútur fái að velta.
Friður sé með yður.
Jón Jens Kristjánsson las í DV að Svanhildur Hólm hefði ýtt bíl Ólafs Ragnars úr snjóskafli:
Óveðri enginn hér fagnar
og óskin um jólasnjó þagnar
sást líkt og ólm
Svanhildur Hólm
ýta á Ólaf Ragnar.
Jón Atli Játvarðarson telur að með þessu sé vandamálið leyst:
Læt ég úr fjósinu leysa hann bola,
létta á vandanum framsóknarnaut.
Óboðleg leiðindi engum mun þola,
né umferðarstíflur á Reykjanesbraut.Ingólfur Ómar Ármannsson segir að snjómokstur sé sérgrein og verkfræðingum fjölgi – ekki veiti af:
Fyrir því má færa drög
flesta tel ég slynga.
Ef snjó skal ryðja munar mjög
um marga verkfræðinga.
Ingólfur Ómar á vetrarsólhvörfum 21. des.:
Skugga vistar skyggð er sól,
skammt þó gistir ragur.
Hérna nyrst við norðurpól
nú er stysti dagur.
Reynir Jónsson skrifar: „Nú er stystur sólargangur á norðurhjara. Daginn fer að lengja á ný. Brunagaddur úti eins og Ómar nefndi það í sinni fallegu vísu:
Brunagaddur klórar kinn,
kólnar blóð í æðum.
Gott er að eiga gæruskinn
og gnægð af ullarklæðum.“
Það mætti svara þessu þannig þegar sól fer að hækka á ný:
Lifir enn í gömlum glæðum
geislar sólar rísa á ný.
Kyndir upp í köldum æðum
kyssir vanga sólin hlý.
Halldór Blöndal