Prestur Þreifandi bylur og allt ófært. En við þessu er ekkert að gera eða segja, segir sr. Kristín Þórunn, sem var úti í snjónum á Egilsstöðum í gær.
Prestur Þreifandi bylur og allt ófært. En við þessu er ekkert að gera eða segja, segir sr. Kristín Þórunn, sem var úti í snjónum á Egilsstöðum í gær. — Ljósmyndir/Kristín Þórunn Tómasdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Fannfergi og ófærð urðu þess valdandi að aflýsa þurfti helgihaldi á Fljótsdalshéraði á jóladag og öðrum degi jóla. Mikill snjór er nú yfir öllu þar eystra og leiðir tepptar, þar með talið innanbæjar á Egilsstöðum. „Hér er allt á kafi í snjó og skaflarnir eru háir. Við slíkar aðstæður er hins vegar eins og tilveran öðlist nýjan og fallegan svip; fólk fer út að moka skafla og hjálpa nágrönnum sínum. Bílum er ýtt upp úr sköflum og þeim sem ekki komast leiðar sinnar er hjálpað. Kærleikurinn er þarna virkur í verki,“ sagði sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir prestur á Egilsstöðum í samtali við Morgunblaðið.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fannfergi og ófærð urðu þess valdandi að aflýsa þurfti helgihaldi á Fljótsdalshéraði á jóladag og öðrum degi jóla. Mikill snjór er nú yfir öllu þar eystra og leiðir tepptar, þar með talið innanbæjar á Egilsstöðum. „Hér er allt á kafi í snjó og skaflarnir eru háir. Við slíkar aðstæður er hins vegar eins og tilveran öðlist nýjan og fallegan svip; fólk fer út að moka skafla og hjálpa nágrönnum sínum. Bílum er ýtt upp úr sköflum og þeim sem ekki komast leiðar sinnar er hjálpað. Kærleikurinn er þarna virkur í verki,“ sagði sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir prestur á Egilsstöðum í samtali við Morgunblaðið.

Fjórum messum í sveitakirkjum aflýst

Á jóladag stóð til að messað yrði í fjórum sveitakirkjum á Héraði; í Ási í Fellum, Valþjófsstað í Fljótsdal, Þingmúla í Skriðdal og á Selbrjót í Jökulsárhlíð. Þeim guðsþjónustum var aflýst aðstæðna vegna, rétt eins og þeim messum sem í gær áttu að vera í Egilsstaðakirkju og á Hjaltastað á Úthéraði.

„Í prestakallinu hér náðist á aðfangadagskvöld að messa á Egilsstöðum og á Seyðisfirði, en öðru var aflýst. Þetta er auðvitað ansi súrt í broti því fyrir þessar messur voru kórar búnir að æfa, baka fyrir messukaffið og svo framvegis,“ segir Kristín Þórunn og heldur áfram:

Vont veður kom gamla fólkinu á Egilsstöðum ekki á óvart

„Að svona skyldi fara kemur annars ekki svo mjög á óvart. Veðurspáin gerði ráð fyrir hraglanda um jólin og slíkt er svo sem ekki stórmál. Gamla fólkið hér á Egilsstöðum sem ég hitti hér á förnum vegi veit sínu viti. Sagði mér hins vegar að í ljósi slíkrar spár mætti við öllu búast, rétt eins og kom á daginn. Þreifandi bylur og allt ófært. En við þessu er ekkert að gera eða segja – og við reynum að bæta þetta upp með einhverju móti. En vissulega er þetta orðið talsvert; núna varð messufall hér í Múlaþingi vegna snjóa og árin 2020 og 2021 var tekið fyrir allt slíkt í heimsfaraldri. Mestu skiptir þó að jólin skila sér alltaf til hvers og eins – og eru hjartans hátíð.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson