Hólmur St. Franciskus-sjúkrahúsið sést hér fyrir miðri mynd. Hér er horft yfir bæinn þar sem sjást byggingar við höfnina og austurhluti bæjarins.
Hólmur St. Franciskus-sjúkrahúsið sést hér fyrir miðri mynd. Hér er horft yfir bæinn þar sem sjást byggingar við höfnina og austurhluti bæjarins. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Gert er ráð fyrir tæplega 40 íbúðum af ýmsum stærðum og gerðum í nýju íbúðahverfi í Stykkishólmi sem nefnist Víkurhverfi. Framkvæmdir þar við gatnagerð eiga að hefjast á nýju ári en að brjóta nýtt land undir íbúðabyggð er viðbragð sveitarfélagsins við fjölgun íbúa og fyrirliggjandi þörf á byggingarlóðum samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélagsins, segir Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson bæjarstjóri í samtali við Morgunblaðið.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Gert er ráð fyrir tæplega 40 íbúðum af ýmsum stærðum og gerðum í nýju íbúðahverfi í Stykkishólmi sem nefnist Víkurhverfi. Framkvæmdir þar við gatnagerð eiga að hefjast á nýju ári en að brjóta nýtt land undir íbúðabyggð er viðbragð sveitarfélagsins við fjölgun íbúa og fyrirliggjandi þörf á byggingarlóðum samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélagsins, segir Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson bæjarstjóri í samtali við Morgunblaðið.

Íbúum hefur fjölgað um 46 á tveimur árum

Íbúar í sameinuðu sveitarfélagi Stykkishólms og Helgafellssveitar eru skv. nýjustu tölum nú orðnir 1.308, en íbúum hefur fjölgað á tveimur árum um 46. Slíkt kallar á margvíslega innviðauppbyggingu og þróun ýmissa verkefna.

Með fyrirhugaðri uppbyggingu í Víkurhverfi er sveitarfélagið að leggja sitt af mörkum í samræmi við samning milli ríkis og sveitarfélaga um að auka framboð íbúða á árunum 2023-2032. Tilgangur samningsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa. Einnig til að stuðla að stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði. „Í þessu endurspeglast sá sóknarhugur sem býr í fólki og fyrirtækjum á svæðinu og sú þörf sem er á uppbyggingu hér,“ segir Jakob bæjarstjóri.

Miklar fjárfestingar

Fjárhagsáætlun Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að tekjur sveitarfélagsins á næsta ári, það er samstæðu A- og B-hluta, verði rétt tæpir 2,3 milljarðar kr. Útgjöld og vaxtakostnaður verða skv. áætluninni tæplega 1,9 milljarðar kr. Margt fleira kemur svo inn í breytuna, en að öllu samanlögðu er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 115 millj. kr.

Áætlunin gerir sömuleiðis ráð fyrir lækkun á fasteignasköttum til að koma til móts við íbúa, m.a. til að koma til móts við hækkun á fasteignamati. Þá er reiknað með að veltufé frá rekstri aukist um tæplega 100 millj. kr. milli ára og verði á því næsta 321,9 milljónir. Gert er ráð fyrir að skuldaviðmið sveitarfélagsins fari áfram lækkandi og verði í kringum 100% á næsta ári, en skv. fjármálareglum sveitarstjórnarlaga er hámarkið þarna 150%. Samkvæmt fjárhagsáætlun til fjögurra ára er áformað að í Hólmi og Helgafellssveit verði á næstu fjórum árum fjárfest á vegum sveitarfélagsins fyrir um 955 milljónir kr. og að lántaka á sama tíma verði 300 millj. kr. Vegna sameiningar sveitarfélaga koma svo til á árunum 2023-2026 framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem verða allt 560 millj. kr.

Verja grunnþjónustu

Jakob Björgvin segir fjárhagsáætlunina endurspegla ágætlega þær áherslur bæjarstjórnar að standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins. Slíkt gildi sérstaklega um hag barna og fjölskyldna þeirra og eldra fólks. Í sambandi við síðarnefnda hópinn má nefna að stofna á miðstöð öldrunarmála; og samþætta þar félags- og heilbrigðisþjónustu við eldra fólk í sveitarfélaginu. Gert er ráð fyrir að starfsemin hefjist á sama tíma og lokið verður við flutning hjúkrunarrýma frá dvalarheimili Stykkishólms við Skólastíg 14 í nýtt hjúkrunarheimili sem sveitarfélagið og ríkið byggja og verður það tengt St. Franciskus-sjúkrahúsinu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson