Jólahaldi flýtt Þessar tvær konur í Kænugarði sóttu jólaguðsþjónustu úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunnar, sem haldin var á jóladag, en jólahaldi hennar var flýtt frá 7. janúar í mótmælaskyni við innrás Rússa.
Jólahaldi flýtt Þessar tvær konur í Kænugarði sóttu jólaguðsþjónustu úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunnar, sem haldin var á jóladag, en jólahaldi hennar var flýtt frá 7. janúar í mótmælaskyni við innrás Rússa. — AFP/Genya Savilov
Dmítró Kúleba utanríkisráðherra Úkraínu sagði í gær að Úkraínumenn vildu efna til friðarráðstefnu fyrir lok febrúar á næsta ári, en þá verður ár liðið frá því að innrás Rússa hófst. Sagði Kúleba í viðtali við AP-fréttaveituna að Úkraínustjórn vildi…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Dmítró Kúleba utanríkisráðherra Úkraínu sagði í gær að Úkraínumenn vildu efna til friðarráðstefnu fyrir lok febrúar á næsta ári, en þá verður ár liðið frá því að innrás Rússa hófst. Sagði Kúleba í viðtali við AP-fréttaveituna að Úkraínustjórn vildi að ráðstefnan yrði á vegum Sameinuðu þjóðanna og að António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, myndi hafa þar milligöngu á milli Rússa og Úkraínumanna.

Kúleba tók hins vegar fram að Rússar yrðu að samþykkja að stríðsglæpamenn úr þeirra röðum yrðu dregnir fyrir dóm áður en Úkraínumenn myndu ræða beint við þá. Öðrum ríkjum væri þó frjálst að ræða við Rússa, og benti Kúleba þar meðal annars á dæmi Tyrkja, sem höfðu milligöngu ásamt Guterres um kornflutningasamkomulagið á milli Rússa og Úkraínumanna í sumar.

Sagði Kúleba að Úkraínumenn myndu gera allt sem þeir gætu til þess að knýja fram sigur í styrjöldinni á næsta ári, en að öllum styrjöldum lyki við samningaborðið í kjölfar þeirra aðgerða sem gerðust á vígvellinum.

Átta felldir í eldflaugaárás

Hart var barist um jólahelgina og felldu Rússar átta manns í Kerson-borg í eldflaugaárás á aðfangadegi jóla. Volodimír Selenskí Úkraínuforseti fordæmdi árásina harðlega og sagði hana dæmi um grimmd Rússa.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði á jóladag að innrásinni í Úkraínu væri ætlað að „sameina rússnesku þjóðina“, og sakaði hann um leið andstæðinga landsins um að vilja sundra hinu „sögulega Rússlandi“. Ummælin vísuðu til kenninga sem Pútín hefur haldið fram um að Úkraínumenn og Rússar séu í raun hluti af sömu þjóð.

Pútín sagði einnig að Rússar væru reiðubúnir til friðarviðræðna. Úkraínustjórn tók hins vegar dræmt í þá yfirlýsingu, þar sem skilyrði Rússa fela í sér að þeir fái varanleg yfirráð yfir þeim svæðum sem þeir segjast hafa innlimað í Rússland.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson