Baksvið
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Kínversk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu á mánudag að frá og með 8. janúar muni fólk sem ferðast til landsins ekki þurfa að sæta sóttkví. Í dag kveða sóttvarnareglur í Kína á um að við komuna til landsins þurfi ferðalangar að dvelja í sóttkví á hóteli í viku og í kjölfarið þrjá daga til viðbótar í heimahúsi, en fyrr á þessu ári voru reglurnar enn strangari og skikkuðu ferðamenn til að sæta sóttkví á hóteli í allt að þrjár vikur.
Munu ferðalangar eftir sem áður þurfa að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi áður en þeim er leyft að halda af stað til Kína.
Undanfarin þrjú ár hefur Kína beitt mjög harkalegum smitvörnum svo að á köflum hafa heilu borgirnar verið lamaðar til að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar. Financial Times segir að í tilkynningu mánudagsins megi greina breyttan tón hjá stjórnvöldum en þar kemur m.a. fram að í meira en 90% tilvika sýni fólk sem smitast af ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar engin eða væg sjúkdómseinkenni.
Meðal þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á smitvörnum í Kína að undanförnu er að þeir sem sýkjast af kórónuveirunni geta einangrað sig heima fyrir frekar en að dúsa í sóttvarnamiðstöð stjórnvalda. Þá þurfa Kínverjar ekki lengur að gangast undir veirupróf með nokkurra daga millibili til að komast ferða sinna.
Hafa smitvarnirnar valdið vaxandi ólgu í kínversku samfélagi og sauð loks upp úr í nóvember og desember þegar mótmælendur héldu út á götur vítt og breitt um landið.
Margir munu vilja ferðast
Hafa sóttvarnirnar skaðað kínverskt efnahagslíf og greinir FT m.a. frá að veltutölur kínverskra verslana hafi verið 5,9% lægri í nóvember á þessu ári en í sama mánuði í fyrra.
Að sögn Bloomberg ættu nýjustu tilslakanir kínverskra stjórnvalda m.a. að vera kærkomin tíðindi fyrir hagkerfi þjóða sem hafa reitt sig á komur kínverskra ferðamanna enda Kínverjar mun líklegri til að ferðast ef þeir þurfa ekki lengur í sóttkví við heimkomu. Hafa íslensk ferðaþjónustufyrirtæki m.a. bundið miklar vonir við vaxandi áhuga Kínverja á landinu en samkvæmt upplýsingum á vef Ferðamálastofu sóttu um 139.000 Kínverjar landið heim árið 2019, en þar af komu 71% frá meginlandi Kína.