„Við sem treystum þeim Guði sem Jesús birti og boðaði vitum að í öllum aðstæðum lífsins er svar í Orði Guðs. Við erum ekki undanskilin þjáningu og erfiðleikum né heldur lífshamingjunni. En við vitum að hvað svo sem mætir okkur á lífsveginum þá erum við ekki ein. Finnum að við erum borin á bænarörmum.“ Þetta sagði sr. Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands í predikun sinni á jóladag við messu í Grafarvogskirkju í Reykjavík. Guðsþjónustunni var útvarpað.
„Með tungumálinu greinum við milli himins og jarðar, köllum eitthvað illt og annað gott. Með tungumálinu getum við sagt það sem í huga okkar býr og hver vilji okkar er. Með tungumálinu getum við tilbeðið Guð og beðið Guð um að vera okkur ljós á lífsins vegi,“ sagði sr. Agnes í predikun sinni.
Sr. Agnes gagnrýndi enn fremur að ekki væri vinsælt nú um stundir að tiltaka nafn Guðs í opinberri umræðu. Í raun væri þöggun varðandi Guð kristinna manna. Velta mætti upp hvort þessi þöggun um nálægð Guðs í lífi okkar væri hluti af vanda samfélagsins sem við væri að glíma og birtist í ýmsum myndum. Margt sem sagt hefði verið frá í fréttum að undanförnu væri myrkraverk. Nefndi biskup þar meðal annars stríð í Úkraínu og Jemen. Annað væri þó jákvætt, svo sem að bregðast ætti hér á landi við ofbeldi meðal barna með þverfaglegu samstarfi sem ætlað er að draga úr líkum á brotum og stuðla að farsæld barna í viðkvæmri stöðu. sbs@mbl.is