Strönd Fjöldi Íslendinga lagði leið sína til Tenerife og Kanarí um jólin.
Strönd Fjöldi Íslendinga lagði leið sína til Tenerife og Kanarí um jólin. — Ljósmynd/Aðsend
Sem áður lagði fjöldi Íslendinga leið sína suður til Kanaríeyja um jólin og hélt þau hátíðleg í sól og blíðu í stað snjókomu og kulda. En þrátt fyrir að föðurlandið hafi verið kvatt yfir hátíðarnar voru hinar íslensku hefðir þó í hávegum hafðar víða um eyjaklasann

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Sem áður lagði fjöldi Íslendinga leið sína suður til Kanaríeyja um jólin og hélt þau hátíðleg í sól og blíðu í stað snjókomu og kulda. En þrátt fyrir að föðurlandið hafi verið kvatt yfir hátíðarnar voru hinar íslensku hefðir þó í hávegum hafðar víða um eyjaklasann.

„Þetta var mjög gaman og frábær stemning, það mættu hingað um 120 manns og jólasveinn,“ segir Níels Hafsteinsson, sem rekur staðinn St. Eugens á Tenerife og sá fyrir jólaveislu fyrir Íslendinga í fyrradag. Þar var boðið upp á hangikjöt og laufabrauð að hefðbundnum íslenskum sið, enda jóladagur þar ytra þrátt fyrir mildari veðráttu.

Aðspurður jánkar Níels því að erfitt hafi verið að koma íslenska jólamatnum, svo sem hangikjöti, rauðkáli og grænum baunum, frá Íslandi til eyjarinnar, en „með hjálp góðra manna“ hafi það tekist. „Það fór allt í ferðatöskum bara. Það var bara skemmtilegt verkefni að standa í því og ef maður gerir þetta aftur á næsta ári er maður reynslunni ríkari.“

Þrátt fyrir að staðurinn sé rekinn af Níels kveður hann staðinn ekki svokallaðan „Íslendingastað“. Segist hann því ekki hafa getað haldið skötuveislu á Þorláksmessu með hreinni samvisku. „Ég gat ekki boðið fólkinu sem kom um kvöldið upp á lyktina,“ segir hann og hlær.

Spánverjanum líkaði skatan

Guðbjörg Bjarnadóttir, sem rekur staðinn Why Not Lago á Kanarí, hélt aftur á móti stærðarinnar skötuveislu á Þorláksmessu þar sem á fjórða hundrað manns mættu. „Það var bara rífandi stemning,“ segir hún og bætir við að þrátt fyrir að að mestu hafi verið um að ræða Íslendinga hafi nokkrir frá öðrum löndum sýnt lit og prófað. „Spánverjanum leist bara vel á skötuna og fannst hún alls ekkert vond, bara spennandi að smakka þetta.“

Segist hún aðspurð einnig hafa þurft að hóa í vini og vandamenn til að pakka skötunni í ferðatöskur. „Þegar allir hjálpast að, þá er þetta létt verk.“

Höf.: Ari Páll Karlsson