Flestir ættu að komast til vinnu í dag vegna snjós sem hefur fallið yfir hátíðarnar, að sögn Eiðs Fannars Erlendssonar, einingarstjóra vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Snjór féll á aðfangadag og aftur í gærkvöldi. „Trukkarnir hafa verið að fara í stofnleiðirnar og halda þeim góðum. Það hefur ekki verið sett gríðarmikið í húsagötur, en það fer einhver hreinsun í gang í fyrramálið til að greikka á því. Það þarf að fara að byrja á því uppi í Úlfarsárdal og nágrenni að aka snjó í burtu. Það er farið að þrengja að þar,“ segir hann og bætir við að sú vinna verði líklega farin af stað á morgun.
Úrkoma var mikil á Suðurlandi á aðfangadag og hefur Vegagerðin hugað að snjómokstri yfir hátíðarnar, sem og verktakar. Einar Viðar Viðarsson hjá verktakafyrirtækinu Eyfelli ehf. stóð í ströngu frá því klukkan sjö á jóladagsmorgun fram á gærdaginn við að skafa vegi undir Eyjafjöllum.
„Við byrjuðum klukkan sjö um morguninn og vorum til tíu í gærkvöldi. Þetta er óvenjulega mikill snjór hérna undir Eyjafjöllum. Seinni partinn fór allt í lás. Það byrjaði klukkan þrjú að hvessa þar mikið og sást ekki neitt. Þá stoppuðu bílar út um allt og ég þurfti að hjálpa björgunarsveitinni að vinna úr því verkefni,“ sagði hann í samtali við mbl.is í gær.
veronika@mbl.is / steinthors@mbl.is