Alexander Novak
Alexander Novak — AFP/Ozan Kose
Alexander Novak aðstoðarforsætisráðherra Rússlands segir rússnesk stjórnvöld reiðubúin að hefja að nýju sölu á jarðgasi til Evrópu í gegnum Yamal-Evrópu-gasleiðsluna. Leiðslan liggur frá norðurhluta Rússlands í gegnum Hvítarússland og yfir til…

Alexander Novak aðstoðarforsætisráðherra Rússlands segir rússnesk stjórnvöld reiðubúin að hefja að nýju sölu á jarðgasi til Evrópu í gegnum Yamal-Evrópu-gasleiðsluna. Leiðslan liggur frá norðurhluta Rússlands í gegnum Hvítarússland og yfir til Þýskalands og Póllands annars vegar og Austurríkis og Slóvakíu hins vegar. Sveiflur hafa verið í streymi á gasi í gegnum Yamal-leiðsluna en með því hafa ráðamenn í Kreml viljað þrýsta á ríki Evrópu um að láta af stuðningi sínum við Úkraínu og hætti gas endanlega að berast með leiðslunni snemma í október.

Í viðtali við fréttastofu Tass sagði Novak að með því að hefja sölu á gasi í gergnum Yamal-leiðsluna mætti draga úr þeim skorti á jarðgasi sem Evrópa glímir við.

Nord Stream liggur enn niðri

Í dag berst rússneskt gas til Evrópu í gegnum TurkStream-leiðsluna sem liggur undir Svartahaf og í gegnum leiðslur sem liggja í gegnum Úkraínu. TurkStream-leiðslan er fullnýtt og er flutningsgeta hennar um 31,5 milljarðar rúmmetra af gasi árlega. Úkraínsku leiðslurnar flytja nú um 42 milljónir rúmmetra af gasi daglega, sem er um það bil einn þriðji af því magni sem evrópskir kaupendur höfðu áður samið um. Þá eru bæði Nord Stream 1- og Nord Stream 2-leiðslurnar enn óvirkar eftir að hafa verið skemmdar í september sl.

Opnist Yamal-leiðslan gæti hún flutt allt að 33 milljarða rúmmetra af gasi árlega. Til samanburðar keyptu Evrópusambandsríkin samanlagt 155 milljarða rúmmetra af jarðgasi frá Rússlandi á síðasta ári eða nóg til að fullnægja um 40% af allri jarðgasþörf sambandsins. ai@mbl.is