Snjómokstur Gríðarmikill snjór á hlaðinu í Fagradal á jóladag. Mikið hefur verið mokað síðastliðna tvo daga.
Snjómokstur Gríðarmikill snjór á hlaðinu í Fagradal á jóladag. Mikið hefur verið mokað síðastliðna tvo daga. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Björgunarsveitir hafa farið í 128 útköll það sem af er desembermánuði, sem er þrefalt meira en á sama tíma í fyrra en þá voru útköll 40 talsins. Mest hefur mætt á sveitum á Suðurlandi vegna færðarinnar og kuldakastsins sem skall á fyrr í mánuðinum. „Það eru mjög fáar sveitir sem ekki hefur verið leitað til í desember. Nánast allar björgunarsveitir hafa komið að aðgerðum á einn eða annan hátt,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. Hátt í 800 manns hafa tekið þátt í björgunaraðgerðum víða um land í desember.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Björgunarsveitir hafa farið í 128 útköll það sem af er desembermánuði, sem er þrefalt meira en á sama tíma í fyrra en þá voru útköll 40 talsins. Mest hefur mætt á sveitum á Suðurlandi vegna færðarinnar og kuldakastsins sem skall á fyrr í mánuðinum. „Það eru mjög fáar sveitir sem ekki hefur verið leitað til í desember. Nánast allar björgunarsveitir hafa komið að aðgerðum á einn eða annan hátt,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. Hátt í 800 manns hafa tekið þátt í björgunaraðgerðum víða um land í desember.

Fólk fylgist vel með veðri

Spáð var talsverðri snjókomu í gærkvöldi sem átti að standa fram eftir morgni í dag. „Við biðjum fólk að fylgjast vel með veðri og vera ekki að fara af stað þegar veðurútlit og færi er tvísýnt. Ekki síður að koma þeim skilaboðum til erlendra gesta okkar sem eru greinilega töluvert margir á landinu núna og á ferðinni. Margir með sitt ferðaplan og vilja halda því,“ segir Jónas og bætir við að gististaðir verði þó að hvetja gesti til að halda kyrru fyrir ef veðurfar er slæmt. „Það væri mjög ákjósanlegt ef þeir sem hýsa þá yfir nótt kæmu þeim skilaboðum til þeirra þegar veðurútlit er ekki gott og það eru lokanir á vegum,“ segir hann. Þá sé best að fólk haldi kyrru fyrir til þess að minnka álag á björgunarsveitir.

Flugeldasalan hefst á morgun

Flugeldasala hefst á morgun, 28. desember, á yfir 100 sölustöðum Landsbjargar sem eru víða um land.

„Við byrjum á morgun. Ég geri fastlega ráð fyrir því að allir sölustaðir séu klárir, ef ekki þá er verið að leggja lokahöndina á þá. Þeir verða opnaðir í fyrramálið, yfir 100 sölustaðir um allt land. Við vonumst til að sjá flesta landsmenn.“ Fram á gamlársdag eru þeir almennt opnir frá klukkan 10.00 til 22.00 en 16.00 á gamlársdag, að sögn Jóns. Þó kunni afgreiðslutíminn að vera misjafn og er hægt að kynna sér þjónustuna á vefsíðu Landsbjargar.

Elstu menn segja að það hafi ekki snjóað jafn mikið á einum sólarhring í Mýrdalnum frá aldamótum, en jafnfallinn snjór var á annan metra. Eru dæmi um að bændur hafi þurft að skríða ofan á snjó til að komast í fjárhúsin. Mikið mæddi á björgunarsveitarfólki Víkverja í Vík í Mýrdal yfir hátíðarnar vegna ferðalanga beggja vegna Víkur og lentu tugir ökutækja í vandræðum á og við Reynisfjall, við Gatnabrú, við Hjörleifshöfða og austan Víkur við Múlakvísl.

Höf.: Veronika Steinunn Magnúsdóttir