Blindbylur Ökutæki sjást hér sitja föst í miðborg Buffalo-borgar í New York-ríki, en 25 manns hið minnsta hafa farist í borginni af völdum eins mesta óveðurs sem dunið hefur á Bandaríkjunum undanfarna áratugi.
Blindbylur Ökutæki sjást hér sitja föst í miðborg Buffalo-borgar í New York-ríki, en 25 manns hið minnsta hafa farist í borginni af völdum eins mesta óveðurs sem dunið hefur á Bandaríkjunum undanfarna áratugi. — AFP/Joed Viera
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Veronika S. Magnúsdóttir veronika@mbl.is Alls hafa 47 látist í níu ríkjum Bandaríkjanna eftir það sem ríkisstjóri New York-ríkis, Kathy Hochul, kallaði „snjóbyl aldarinnar“ á blaðamannafundi í gær. Björgunarfólk í New York-ríki hefur staðið í ströngu.

Fréttaskýring

Veronika S. Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Alls hafa 47 látist í níu ríkjum Bandaríkjanna eftir það sem ríkisstjóri New York-ríkis, Kathy Hochul, kallaði „snjóbyl aldarinnar“ á blaðamannafundi í gær. Björgunarfólk í New York-ríki hefur staðið í ströngu.

Ástandið er hvað verst í borginni Buffalo í New York-ríki en þar hafa að minnsta kosti 25 manns látist í snjóbylnum. Hafa lík fundist í bílum og undir snjósköflum. Viðbragðssveitir eru kallaðar út og ganga á milli bíla í von um að fólk finnist, lífs eða liðið. Þar geta snjóbyljir staðið yfir tímunum saman. Að sögn Byrons Browns borgarstjóra Buffalo voru rúmlega 100.000 manns án rafmagns þar og bætti hann við í samtali við fréttastofu CNN að kuldinn hefði náð fjögurra stiga frosti á sínu heimili. Veðurviðvaranir verða áfram í gildi í Buffalo, Jamestown og Watertown í New York-ríki en falla úr gildi á næstu dögum. Snjóhæð gæti aukist um 20 sentímetra þar á næstu dögum.

Bæir í vesturhluta New York-ríkis glíma við 75 til 100 sentímetra snjóhæð og hvatti Hochul fólk til þess að halda kyrru fyrir heima, þar sem ekkert lát virtist ætla að verða á snjókomunni.

2.600 flugferðum aflýst í gær

Gert er ráð fyrir því að snjóbylurinn haldi áfram í norðausturhluta Bandaríkjanna, þar sem íbúar hafa víða glímt við rafmagnsleysi og raskanir á flugumferð vegna veðursins. Yfir 150.000 flugferðum hefur verið aflýst í Bandaríkjunum undanfarna daga, en jólin eru jafnan einn mesti háannatími fyrir flugfélögin vestanhafs. Þurfti m.a. að aflýsa um 2.600 flugferðum í gær.

Mark Poloncarz, héraðsstjóri Erie-héraðs í New York, þar sem Buffalo er, segist miður sín vegna dauðsfallanna 25, en talið er að mannfallið verði meira en árið 1977, þegar 30 dóu í mannskæðum snjóbyl í Buffalo-borg. „Við búumst við fleiri dauðsföllum,“ sagði Poloncarz á blaðamannafundi í gær þar sem hann ávarpaði gesti ásamt Hochul. Þá væri borgin „algjörlega ófær“ að sögn Poloncarz. Hvatti hann og fólk til að halda kyrru fyrir þar til storminn lægði. John Garcia héraðsfógeti Buffalo-héraðs sagði að hríðin væri sú versta sem hann hefði séð. Snjóblinda hrjáði viðbragðsaðila og gerði þeim erfitt fyrir í útköllum.

„Það brýtur mann alveg að fá símtöl frá barnafjölskyldum sem segjast vera að frjósa í hel,“ sagði hann í samtali við CNN.

Hochul, sem sjálf er frá Buffalo, bætti við að hún hún hefði orðið steinhissa á því sem fyrir augu bar þegar hún fór í vettvangsferð til Buffalo á dögunum. „Þetta er eins og að mæta á stríðssvæði. Það er hreinlega ótrúlegt að sjá alla bílana sem sitja fastir í vegköntum,“ sagði hún og bætti við að björgunarbílar hefðu einnig setið fastir í snjó. „Þetta er stríð gegn móður náttúru,“ bætti hún við.

Um 1,7 milljónir voru án rafmagns í Bandaríkjunum í nístandi kuldanum, samkvæmt tölum vefsíðunnar poweroutage.com. Sú tala hefur nú lækkað en enn voru 50.000 manns án rafmagns síðdegis á austurströnd Bandaríkjanna í gær.

Þar sem rafdreifikerfi frusu víða í Erie-héraði var ekki búist við að rafmagnið kæmist aftur á fyrr en í dag, þar sem rafdreifistöð er þar grafin undir fimm metra snjólagi. Alþjóðaflugvöllurinn í Buffalo er þá lokaður þar til á morgun og akstursbann er enn í gildi í borginni sem og meirihluta Erie-héraðs. Þá hafa vegalokanir og snjóbyljir gert að verkum að helstu þjóðvegum borgarinnar hefur verið lokað.

Viðlíka snjóstormur hefur ekki orðið á austurströnd Bandaríkjanna í 30 ár.

Höf.: Veronika S. Magnúsdóttir