Flug Þota Icelandair í nýjum litum tilbúin í loftið.
Flug Þota Icelandair í nýjum litum tilbúin í loftið. — Ljósmynd/Icelandair
Farþegi sem fékk hjartaáfall var hnoðaður til lífs um borð í þotu Icelandair frá Íslandi til Seattle í Bandaríkjunum að kvöldi jóladags. Vélin var komin yfir Grænland þegar farþeginn veiktist, en sá var samkvæmt heimildum Morgunblaðsins bandarískur karlmaður um sjötugt

Farþegi sem fékk hjartaáfall var hnoðaður til lífs um borð í þotu Icelandair frá Íslandi til Seattle í Bandaríkjunum að kvöldi jóladags. Vélin var komin yfir Grænland þegar farþeginn veiktist, en sá var samkvæmt heimildum Morgunblaðsins bandarískur karlmaður um sjötugt. Flugvélin, sem fór í loftið um kl. 17, var yfir Baffinslandi, sem er í nyrstu byggðum Kanada, þegar þetta gerðist. Flugfreyja og tveir læknar sem voru farþegar um borð hjálpuðu manninum en svo var þotunni lent í bænum Iqaluit í Kanada. Þar var farþeganum veika komið undir læknishendur. Flugvélin hélt svo eftir þetta áfram til vesturstrandar Bandaríkjanna, en atvikið tafði ferðina um tvær klukkustundir.

Áætlun Icelandair er nú komin aftur á rétt spor eftir þá röskun sem varð í óveðurshvellinum í byrjun síðustu viku. Fjöldi ferða féll út vegna veðurs, auk þess sem farþegar komust ekki í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli vegna ófærðar á Reykjanesbrautar og víðar. Þetta setti stórt strik í alla reikninga, þar sem margir voru á faraldsfæti fyrir jólin. Því greip Icelandair til þess ráðs að leigja þotu af gerðinni Boeing 777 sem tekur 312 farþega og Airbus sem tekur 436 manns. Vélar þessar voru notaðar í ferðir meðal annars til Kaupmannahafnar og Tenerife og tókst með því að koma öllum á áfangastað. sbs@mbl.is