Gæsir Vel er fylgst með vexti og viðgangi gæsastofnsins.
Gæsir Vel er fylgst með vexti og viðgangi gæsastofnsins. — Morgunblaðið/Hákon
Gæsavarp á Íslandi í ár virðist hafa tekist misjafnlega, segir Arnór Þórir Sigfússon fuglafræðingur. Styrkur gæsastofnsins er meðal annars metinn út frá vængjum sem veiðimenn taka af þeim fuglum sem þeir skjóta á haustin

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Gæsavarp á Íslandi í ár virðist hafa tekist misjafnlega, segir Arnór Þórir Sigfússon fuglafræðingur. Styrkur gæsastofnsins er meðal annars metinn út frá vængjum sem veiðimenn taka af þeim fuglum sem þeir skjóta á haustin. Alls bárust Arnóri um 6.700 vængir í ár, sem telst mjög góð skil. Út frá innsendum vængjum er greint og talið hverjir koma af fullorðnum fuglum og svo af ungum. Í grágæsinni nú var hlutfall unga um 58%, sem telst mjög gott.

Fuglaflensa hefur áhrif

„Meðaltalið er um 45% en þegar ungahlutfallið er komið í nærri 60% eru slíkt góðar fréttir, svo mikið hefur verið talað um mögulega fækkun grágæsa undanfarin ár,“ segir Arnór Þórir og heldur áfram:

„Hjá heiðagæsum var ungahlutfallið um 26%, sem er nokkru undir meðaltalinu en það er 30%. Ungahlutfall hjá helsingjum var aðeins um 15%, sem er nokkru undir meðaltali sem er 27%. „Þetta er með lægra hlutfalli hjá helsingja sem ég hef séð. Vetrarstöðvar helsingja eru í Skotlandi þar sem fuglaflensa hefur mallað að undanförnu. Síðustu árin hefur helsingjastofninn verið nokkuð sterkur og í sókn en nú eru uppi vísbendingar um að hann sé aðeins að gefa eftir. Talning sem gerð verður á nýju ári ætti að svara því hvernig stofninn stendur.“

Merktar til Skotlands

Í talningum á íslenska gæsastofninum nú í haust komu fram 500 heiðagæsir. Grágæsir voru með meira móti í talningunni og helgast það líklega af mildum nóvembermánuði og langvarandi suðaustanáttum sem hafa seinkað fari til Bretlands. Merktu gæsirnar eru flestar komnar til Bretlands. Fimm grágæsir eru þó á landinu enn og munu væntanlega hafa vetursetu ef fer sem horfir.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson