England
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Arsenal náði sjö stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í gærkvöldi með 3:1-heimasigri á West Ham í Lundúnaslag. West Ham var með 1:0-forskot í hálfleik en Arsenal sýndi hvers vegna liðið er í toppsætinu, með glæsilegri spilamennsku í seinni hálfleik.
Saïd Benrahma kom West Ham yfir með marki úr víti á 27. mínútu en þeir Bukayo Saka, Gabriel Martinelli og Eddie Nketiah skoruðu allir í seinni hálfleik.
Manchester City á leik til góða gegn Leeds annað kvöld og getur þá minnkað forskot Arsenal á toppnum í fimm stig.
Liverpool vann sinn þriðja leik í röð í deildinni er liðið heimsótti Aston Villa og vann 3:1-sigur. Liverpool-menn þurftu að hafa fyrir sigrinum, þrátt fyrir að komast í 2:0. Aston Villa minnkaði muninn í 2:1 og hefði með smá heppni getað jafnað.
Átján ára markaskorari
Þess í stað skoraði 18 ára Spánverjinn Stefan Bajcetic þriðja mark Liverpool, með sínu fyrsta marki í ensku úrvalsdeildinni. Mo Salah og Virgil van Dijk skoruðu einnig fyrir Liverpool, en Ollie Watkins skoraði mark Aston Villa. Eftir erfiða byrjun er Liverpool í sjötta sæti með 25 stig og aðeins fimm stigum frá fjórða sæti og sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Newcastle er enn fljúgandi og fór liðið upp í annað sætið með 3:0-útisigri á Leicester. Sigurinn var aldrei í hættu og var staðan orðin 2:0 eftir aðeins sjö mínútur, eftir mörk frá Chris Wood og Miguel Almirón. Joelinton gulltryggði 3:0-sigur eftir rúmlega hálftíma leik.
Tottenham komst í hann krappan gegn Brentford á útivelli í Lundúnaslag. Vitaly Janelt og Ivan Toney komu Brentford í 2:0, en Harry Kane minnkaði muninn á 65. mínútu og Pierre-Emile Højbjerg jafnaði á 71. mínútu og þar við sat. Tottenham er enn í fjórða sæti, en liðin fyrir neðan eru að nálgast Norður-Lundúnaliðið.
Lampard valtur í sessi
Stjórasæti Franks Lampards hjá Everton er orðið býsna heitt eftir 1:2-tap á heimavelli gegn Wolves. Með sigrinum fór Wolves upp úr botnsætinu og er Everton nú aðeins einu stigi fyrir ofan fallsætin. Rayan Aït Nouri skoraði sigurmark Wolves á fimmtu mínútu uppbótartímans, en Yerri Mina hafði komið Everton yfir snemma leiks, og Daniel Podence jafnaði fyrir Wolves.
Southampton féll niður í botnsætið fyrir vikið, því liðið tapaði á heimavelli fyrir Brighton, 1:3. Southampton hefur tapað fjórum leikjum í röð og er liðið í miklum vandræðum. Fallbaráttan er hins vegar hnífjöfn og nægir liðinu einn sigur til að fara upp úr fallsæti. Þá vann Fulham 3:0-útisigur á Crystal Palace. Tyrick Mitchell og James Tomkins fengu báðir rautt spjald hjá Palace og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Fulham.