[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spænski varnarmaðurinn Diego Llorente hefur skrifað undir nýjan samning við enska knattspyrnuliðið Leeds United. Llorente gekk í raðir Leeds frá Real Sociedad árið 2020 en hann er uppalinn hjá Real Madrid

Spænski varnarmaðurinn Diego Llorente hefur skrifað undir nýjan samning við enska knattspyrnuliðið Leeds United. Llorente gekk í raðir Leeds frá Real Sociedad árið 2020 en hann er uppalinn hjá Real Madrid. Þá á hann 10 landsleiki fyrir Spán. Nýi samningurinn gildir til ársins 2026 en síðasti samningur átti að renna út næsta sumar.

Lionel Messi verður áfram í herbúðum franska knattspyrnufélagsins París SG á næsta tímabili, en hann átti að vera samningslaus eftir yfirstandandi leiktíð. Nú er hins vegar ljóst að Messi mun framlengja samninginn um eitt tímabil. Messi samdi við félagið til tveggja ára þegar hann kom þangað frá Barcelona sumarið 2021 en var með ákvæði um að geta framlengt hann um eitt ár.

Knattspyrnudeild Gróttu tilkynnti um helgina komu hollenska miðjumannsins Tareqs Shihabs til félagsins. Shihab fæddist í Hollandi en á ættir að rekja til Englands og hefur leikið með yngri landsliðum þar í landi. Í tilkynningu Gróttu kemur m.a. fram að Shihab hafi leikið með Bukayo Saka, leikmanni Arsenal og enska landsliðsins, í yngri landsliðum Englands. Shihab verður 22 ára í mars en hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við Gróttu.

Ítalinn Claudio Ranieri er tekinn við ítalska knattspyrnuliðinu Cagliari en hann tekur við liðinu af Fabio Liverani. Ranieri þjálfaði Cagliari frá árunum 1988-1991 og náði mögnuðum árangri. Hann fór með liðið úr C-deild upp í A-deild og tók í kjölfarið við Napoli. Eftir það þjálfaði Ranieri fjölmörg lið, m.a. Chelsea, Juventus og Inter, ásamt því að gera Leicester að Englandsmeistara.

Franski miðjumaðurinn N'Golo Kanté gæti yfirgefið enska knattspyrnufélagið Chelsea, en samningur hans við félagið rennur út eftir yfirstandandi leiktíð. Kanté hefur glímt við erfið meiðsli að undanförnu og missti hann af HM í Katar. Hann lék síðast með Chelsea í ágúst. Leikmaðurinn verður væntanlega frá keppni í mars og gæti hann því átt fáa leiki eftir í bláu Chelsea-treyjunni.

Unai Emery, knattspyrnustjóri Aston Villa, vill losna við argentínska markvörðinn Emiliano Martínez. Spænski miðilinn Fichajes greinir frá. Martínez hegðaði sér furðulega meðan á úrslitaleik Argentínu og Frakklands á HM stóð, sem og eftir leik. Emery var ekki hrifinn af hegðun markvarðarins og vill losna við hann. Mörg stór félög fylgjast vel með gangi mála hjá Martínez, eftir mjög góða frammistöðu á HM, þar sem hann var valinn besti markvörðurinn í mótslok.

Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Luis Suárez er á leið til Gremio í Brasilíu, en hann hefur komist að samkomulagi við félagið. Suárez, sem er 35 ára, lék síðast með Nacional í heimalandinu og varð úrúgvæskur meistari, áður en hann yfirgaf félagið. Gremio verður nýliði í efstu deild á næstu leiktíð, eftir eitt ár í B-deildinni.

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur áhuga á að kaupa franska varnarmanninn Benoit Badiashile frá Mónakó. Badiashile er 21 árs gamall og spilar aðallega sem vinstri miðvörður. Hann er uppalinn hjá Mónakó og hefur leikið rúmlega 100 deildarleiki fyrir félagið þrátt fyrir ungan aldur.

Þeir Bjarki Már Elísson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon koma allir til greina í vali á bestu handboltamönnum í heimi á vefsíðunni Handball-Planet. Bjarki Már sem leikur með Vezprém í Ungverjalandi er tilnefndur í flokki vinstri hornamanna ásamt Hampus Wanne hjá Barcelona, Dylan Nahi hjá Kielce og Milos Vujovic hjá Fuchse Berlin. Gísli Þorgeir og Ómar Ingi eru samherjar hjá Magdeburg í Þýskalandi en Gísli er tilnefndur í flokki miðjumanna ásamt Kentin Mahe hjá Vesprém, Jim Gottfridsson hjá Flensburg og Luc Steins hjá PSG. Ómar er tilnefndur í flokki hægri skyttna ásamt Mathias Gidsel hjá Füchse Berlin, Dika Mem hjá Barcelona og Alex Dujshebaev hjá Kielce.