Öflugur Ómar Ingi Magnússon lék enn og aftur gríðarlega vel í sterkum sigri Magdeburgar gegn Göppingen í þýsku 1. deildinni í gær.
Öflugur Ómar Ingi Magnússon lék enn og aftur gríðarlega vel í sterkum sigri Magdeburgar gegn Göppingen í þýsku 1. deildinni í gær. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
Magdeburg hafði betur gegn Göppingen, 33:29, þegar liðin áttust við í þýsku 1. deildinni í handknattleik gær. Eins og oft áður voru Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson áberandi í sóknarleik Magdeburgar

Magdeburg hafði betur gegn Göppingen, 33:29, þegar liðin áttust við í þýsku 1. deildinni í handknattleik gær.

Eins og oft áður voru Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson áberandi í sóknarleik Magdeburgar. Ómar Ingi skoraði sjö mörk og lagði upp sex önnur fyrir Magdeburg og var marka- og stoðsendingahæsti leikmaður liðsins. Gísli Þorgeir skoraði tvö mörk og lagði upp fimm fyrir liðið. Þýskalandsmeistarar Magdeburg eru áfram í fjórða sæti deildarinnar, en aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Füchse Berlín og eiga auk þess leik til góða.

Íslendingar voru einnig áberandi í þýsku B-deildinni í gær. Oddur Gretarsson fór á kostum fyrir Balingen, sem er í toppsætinu, í 34:29-sigri gegn Hagen. Oddur gerði sér lítið fyrir og skoraði tíu mörk úr jafnmörgum skotum. Var hann markahæstur í leiknum. Samherji hans Daníel Þór Ingason bætti við tveimur mörkum og gaf þrjár stoðsendingar að auki.

Tumi Steinn Rúnarsson lét vel að sér kveða hjá Coburg og skoraði níu mörk og gaf þrjár stoðsendingar gegn Motor Zaporozhye, þrátt fyrir að liðið hafi fengið skell, 23:30. Úkraínska liðið Motor fékk boð um að spila í þýsku B-deildinni vegna innrásar Rússa í Úkraínu og þekktist það.

Í efstu deild kvenna gerðu Zwickau og Oldenburg 26:26-jafntefli í Zwickau. Díana Dögg Magnúsdóttir var markahæst hjá Zwickau með fimm mörk. Þá lagði hún upp fjögur til viðbótar.