[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Thomas Frank, knattspyrnustjóri enska liðsins Brentford, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið sem gildir til ársins 2027. Þessi 49 ára gamli Dani tók við liðinu af Dean Smith í október 2018 og hefur náð eftirtektarverðum árangri

Thomas Frank, knattspyrnustjóri enska liðsins Brentford, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið sem gildir til ársins 2027. Þessi 49 ára gamli Dani tók við liðinu af Dean Smith í október 2018 og hefur náð eftirtektarverðum árangri. Hann stýrði liðinu upp í úrvalsdeildina árið 2021 en undir hans stjórn endaði það nokkuð óvænt í 13. sæti á síðasta tímabili. Frank skrifaði undir nýjan samning í janúar á þessu ári en félagið vildi framlengja enn frekar við hann vegna góðs gengis.

Enska knattspyrnufélagið Aston Villa hefur fengið leyfi frá borgarstjórn Birmingham-borgar til að stækka leikvanginn sinn, Villa Park. Villa Park tekur 42 þúsund manns í sæti í núverandi mynd en félagið hefur fengið leyfi til að stækka hann svo hann geti tekið 50 þúsund í sæti. Þá á að byggja nýja stúku, Trinity-stúkuna, og einnig verður lestarstöðin í nágrenninu, Witton-stöðin, tekin í gegn. Villa Park er hugsaður sem einn af völlunum sem leikið verður á fái Bretland og Írland að halda Evrópumótið árið 2028 eins og þau hafa sótt um.

Brynjar Ingi Bjarnason, landsliðsmaður í fótbolta, gæti gengið í raðir Gautaborgar í Svíþjóð frá norska liðinu Vålerenga. Sænski miðillinn Expressen greinir frá að sænska félagið hafi mikinn áhuga á varnarmanninum, sem er 23 ára. Brynjar hefur leikið með Vålerenga frá því á síðasta ári, eftir stutta dvöl hjá Lecce á Ítalíu. Hann hefur átt erfitt uppdráttar undanfarna mánuði hjá Vålerenga og gæti hann leikið í Svíþjóð á næsta tímabili. Gautaborg hafnaði í áttunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.