Næstu daga þarf að nýta til að ljúka kjarasamningum

Nú þegar búið er að semja við félög flestra launamanna á almennum vinnumarkaði er ástæða til bjartsýni um framhaldið og að öllu óbreyttu ætti friður að geta haldist á vinnumarkaði næsta rúma árið, hið minnsta. En þrátt fyrir betri horfur að þessu leyti er enn verk að vinna. Enn eru stéttarfélög á almenna markaðnum sem eiga eftir að semja, fyrir utan félög opinberra starfsmanna. Efling er einna helst þeirra félaga sem enn eiga eftir að semja en áhyggjuefni er hvaða hugmyndir koma enn úr þeirri átt. Tilboð Eflingar er enn úr takti við það sem aðrir hafa samið um og því óaðgengilegt. Og Efling er raunar ekki eina félagið sem er úr takti við mikinn meirihluta launamanna, sem veldur áhyggjum.

Þeir samningar sem þegar hafa verið gerðir fela í sér að allt svigrúm er nýtt og rúmlega það hjá mörgum fyrirtækjum sem munu illa eða ekki þola samningana. Það bitnar ekki aðeins á fyrirtækjunum heldur vitaskuld einnig á starfsmönnum þeirra, sem er mikið og raunverulegt áhyggjuefni. Þess vegna verður að fara varlega í þeim kröfugerðum sem nú eru settar fram.

Í þessu sambandi verður líka að hafa í huga varnaðarorð Yngva Harðarsonar hjá Analytica sem telur nýgerða kjarasamninga geta kallað á hærri vexti Seðlabankans til að ná niður verðbólgunni. Og nýjustu verðbólgutölur eru ekki uppörvandi.

Ábyrgir forystumenn launþegasamtaka hljóta að reyna að nýta tímann á milli jóla og nýárs til að ljúka þeim samningum sem út af standa og freista þess þannig að tryggja kjarabætur, en ekki síst að forðast kjararýrnun.