Björg Stefanía Sigurðardóttir fæddist á Hvammstanga 20. mars 1937. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga 6. desember 2022.
Foreldrar Bjargar voru Björnlaug Marta Albertsdóttir, f. 1906, d. 1986, og Sigurður Emil Jónsson, f. 1912, d. 1972. Björg var önnur í röð þriggja systkina, elstur var Gunnar Sölvi, f. 1934, d. 2001, en yngri er Helena Svanlaug, f. 1945.
Björg ólst upp í foreldrahúsum á Hvammstanga við leik og störf. Hún gekk í Barnaskólann á Hvammstanga og fór síðan í Kvennaskólann á Hvammstanga sem starfaði einungis í einn vetur undir handleiðslu og forystu Bennýjar Sigurðardóttur.
Björg kynntist lífsförunaut sínum, Stefáni Þórhallssyni frá Ánastöðum, fyrir tvítugt en þau gengu í hjónaband 8. desember 1957. Stefán fæddist 17. apríl 1931 en lést fyrir rúmum tveimur árum, 8. október 2020.
Björgu og Stefáni varð tveggja barna auðið: 1) Emilía Marta, f. 1958, gift Þrándi Óðni Baldurssyni. Þeirra börn eru Arna og Baldur en fyrir átti Emilía soninn Óttar. 2) Ólafur Hallur, f. 1960, kvæntur Huldu Einarsdóttur. Þeirra börn eru Sara, Aron Stefán og Rakel Ósk. Barnabarnabörnin eru níu talsins.
Björg og Stefán reistu sér húsið Birkihlíð á Hvammstanga, norðan við Vegamót, þ.e. foreldrahús Bjargar. Þau hjón fluttu þar inn árið 1958 og sinnti Björg þar húsmóðurstörfum allt til ársins 2021 þegar hún flutti á sjúkrahúsið á Hvammstanga.
Störf Bjargar voru mun víðtækari en húsmóðurstörf í Birkihlíð og kom hún víða við. Hún starfaði um langt skeið sem talsímavörður á símstöðinni. Einnig vann hún um árabil hjá rækjuvinnslunni Meleyri hf. Þá var hún lengi starfandi í kjörbúð Kaupfélags Vestur-Húnvetninga og margar sláturtíðir í Sláturhúsi Kaupfélagsins.
Björg var félagslynd og tók virkan þátt í ýmiskonar félagsstörfum. Hún tók þátt í starfi kvenfélagsins Bjarkar um áratugaskeið og leiklistarstarfi á staðnum. Einnig söng hún um árabil í Kirkjukór Hvammstanga og Lillukórnum.
Útförin fór fram í kyrrþey frá Hvammstangakirkju að hennar ósk, 14. desember 2022. Jarðsett var í Kirkjuhvammskirkjugarði.
Elsku amma. Amma sem alltaf gerði allt fyrir alla. Hún hafði alltaf tíma og nægt pláss. Hún var alltaf að, dugleg og hjálpsöm. Hafði áhuga og vit á ótrúlegustu hlutum, setti sig inn í umræðuefni hverrar stundar og tók þátt í þeim af einlægum áhuga. Forvitin, afskiptasöm, ráðagóð, drífandi, hamingjusöm, gjafmild og svo margt annað.
Þegar ég var lítil varði ég löngum stundum hjá ömmu og afa. Amma mætti eldsnemma til vinnu, fór í rækjuna til hádegis svo kaupfélagið eftir hádegi. Kom heim á milli og gaf okkur að borða, mér, afa og oft Óla. Sumrin hjá ömmu og afa voru best. Útilegur, reiðnámskeið, bjartar nætur, göngutúrar, rúntur, gleði og gaman.
Af öllu hjarta þakka ég ömmu útbreiddan faðminn, opnar dyrnar, alúðina og uppeldið. Sönginn, sögurnar, bænirnar, uppskriftirnar, samverustundirnar hérlendis og erlendis. Amma var fyrirmynd í svo mörgu. Gönguskíði, hjólreiðar, göngutúrar, útivist. Bakstur, eldamennska, gestrisni og náungakærleikur. Enginn náði hvítum þvotti eins hvítum og enginn náði blettum betur úr. Elsku amma, knúsaðu afa og passaðu að hann raki sig daglega.
Amma var alltaf til staðar og vildi aldrei missa af neinu. Mætt fyrst þegar nýtt barn fæddist og tilbúin að hjálpa til. Heimilið var óaðfinnanlegt þegar amma var í heimsókn, allur þvottur samanbrotinn á sínum stað og allt í röð og reglu. Þannig var amma, alltaf best.
Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.
(Vatnsenda-Rósa)
Þín
Arna.