Terry Douglas Mahaney fæddist 15. mars 1961. Hann lést 22. nóvember 2022. Útför hans fór fram 5. desember 2022.

Þegar símtalið um andlát Terrys vinnufélaga barst kom það svo sem ekkert á óvart. Vitað var að baráttan yrði erfið og hann hafði leyft okkur að fylgjast vel með sinni erfiðu baráttu. En vonin var alltaf fyrir hendi og vonin getur dregið fólk ansi langt því hana getur enginn tekið. Ég vonaði með honum að hann fengi að eiga jólin með fjölskyldu sinni og vinum. Terry var búinn að vinna í nokkur ár í BYKO og þá í gólfefna- og múrdeild. Hann var múrari og síðustu ár tók hann á móti nemum frá Tækniskólanum en hann sá líka til þess að skólinn fengi flísaafganga fyrir nemendur skólans.

Terry var rólegur og ljúfur maður. Þegar fárið byrjaði þarna um árið breyttist margt og þar á meðal nánd fólks. Hann tók það upp á 10 og ætlaði sko ekki að fá þennan fjanda, passaði upp á að gríma og spritt væru aldrei langt frá og minnti fólk á ef það virti ekki regluna. Stundum fannst manni of langt gengið en það skipti engu því svona vildi hann hafa það og ekkert múður.

Flesta morgna þegar hann kom og kíkti yfir deildina og það vantaði bretti og lyftarinn inni hjá mér kom hann og spurði: „Hanna, má ég fá þennan lyftara?“ Sko þennan rauða, hann þoldi ekki þann gula.

Það eru mörg lítil atvik og hlutir sem gefa manni mest í minningunni. Terry að fitla við giftingarhringinn, alltaf að snúa honum eða bara snerta. Til dæmis sat hann oftast við borð hjá lagerklíkunni og fór yfir þrautir í Mogganum. Hann fékk sér oftast gos og nammi í kaffinu, hann mátti það ekki en honum fannst það bara svo gott að hann gat ekki sleppt því.

Eitt er það sem aldrei gleymist en það eru snitturnar hans Terrys. Alltaf þegar hann átti afmæli kom hann með snittur og bauð upp á, en það gera fáir betri snittur en hann.

Þegar ég hitti þennan ljúfa mann síðast kom hann til mín að þakka fyrir gjöf frá starfsfólki BYKO, bæði vinnufélögum og þeim sem voru hættir. Þá vildi hann fara að senda öllum blóm eða kort til að þakka fyrir. Ég bað hann að vera ekkert að því enda ætlaðist fólk ekki til að fá þetta endurgreitt. Þá ræddum við aðeins saman og hann sagðist vera farinn að sætta sig við orðinn hlut. Þá spurði ég hann hvort ég mætti faðma hann og við kvöddumst í síðasta sinn með faðmlagi.

Takk fyrir samstarfið og alla pennana sem þú töltir reglulega með til mín. Þau eru heppin þarna efra að fá þig því varla verður snittulaust hjá þér.

Megi minningin um Terry og giftingarhringinn hans lifa um ókomna tíð.

Góða ferð!

Kveðja,

Hanna

Ingimundardóttir.