Oddný Ólafía Sigurjónsdóttir, Lóa, fæddist 6. júní 1929. Hún lést 2. nóvember 2022.

Útförin fór fram 11. nóvember 2022.

Hinn 11. nóvember kvaddi ég hinsta sinni elskulega föðursystur mína, hana Lóu, Oddnýju Ólafíu Sigurjónsdóttur. Lóa var sú manneskja sem ég leit mest upp til af öllu mínu mér eldra skyldfólki. Lóa var stórglæsileg kona sem tekið var eftir og ég hef aldrei séð fallegri og unglegri konu yfir nírætt. Það var ekki annað hægt en að dást að Lóu, fasi hennar og persónu. Hversu ljúft það var að koma á fallega heimilið hennar og Bensa. Opnu faðmarnir þeirra og brosin blíðu gerðu það að verkum að maður fann sig ætíð svo yfirmáta velkominn og aldrei neitt minna en veislumóttökur í boði. Lóa og Bensi voru dásamlega samrýnd, skemmtileg og hlý, svo miklar fyrirmyndir!

Ég var alin upp á Akranesi af föðurforeldrum mínum ásamt fósturbróður, Sigurjóni Guðmundssyni, sem Lóa eignaðist ung. Þessi fjölskyldutengsl mín við Lóu hafa án efa valdið því að við vorum nánari en ella hefði verið. Þegar ég flutti 10 ára gömul til Reykjavíkur með ömmu, afa og Sigurjóni var ég með miklar vangaveltur um lífið og tilveruna og hlutskipti mitt í lífinu. Þessar hugsanir mínar voru án efa þess valdandi að ég var sögð erfitt barn. Þegar við eitt sinn heimsóttum Lóu og Bensa og börnin þeirra þrjú, Sævar, Hermann og Rannveigu, á Akureyri er ég 12-13 ára gömul og þótti sem oftar stórkostlegt að koma til þeirra. Einn daginn biðja þau mig að koma og setjast með sér í stofunni og spyrja mig þá hvort ég vilji ekki bara flytja alfarið til þeirra, fara í skóla á Akureyri, að þau tækju mig að sér. Ég man enn hvað ég var yfir mig glöð yfir að þau skyldu sýna mér þennan mannkærleika, en mér var ætlað eitthvað annað, því eftir einhverja umhugsun guggnaði ég og sneri til baka til Reykjavíkur. Enn þann dag í dag hef ég verið hugsi yfir þessari ákvörðun minni en eftir situr hugsunin um þann kærleik sem þau sýndu mér og hversu miklu þau voru reiðubúin að fórna fyrir mig.

Á námsárunum var maðurinn minn aðstoðarlæknir á Akureyri og þar bjuggum við í eitt ár með dætrunum okkar litlu, Huldu og Örnu. Lóa og Bensi voru ekki lengi að taka að sér ömmu- og afahlutverkið og við erum þeim ævinlega þakklát fyrir öll elskulegheitin sem þau sýndu okkur, sem værum við þeirra eigin afkomendur.

Lóa lifði farsælu lífi, hún var elskuð, ekki bara af Bensa sínum, börnunum og barnabörnunum, heldur af öllum þeim ótal mörgu sem nutu þeirra fádæma gestrisni og hlýhugar gegnum árin. Nú er elsku Lóa mín komin í Sumarlandið til hans Bensa síns, sem án efa hefur tekið henni opnum örmum. Ég kveð þig að sinni elsku Lóa mín þar til við sjáumst á ný. Takk fyrir þá hlýju og kærleik sem þú ávallt sýndir mér! Takk fyrir allt og allt!

Þín frænka,

Sigríður Steinarsdóttir (Sigga).