Guðjón Þorleifsson fæddist 1. maí 1928. Hann lést 15. desember 2022. Útför hans fór fram 22. desember 2022.

Elsku afi. Það sem þín verður saknað. Þú varst svo dásamlegur afi, mikill barnakarl og fannst alltaf svo gaman að sjá barnabörnin þín. Þú varst svo sannarlega ríkur með barnaflóruna í kringum þig og voru barnabörn okkar Söndru 5. ættliðurinn. Við tvíburarnir vorum mikið hjá ykkur ömmu í Smáraflötinni þegar við vorum litlar og eigum við endalausar góðar minningar frá þeim tímum. Við vorum nú ekki fyrirferðarlitlar og getum við ímyndað okkur að við höfum alveg haldið ykkur vel á tánum. Einu sinni bökkuðum við bíl í gegnum bílskúrshurðina, svo datt pabba í hug að koma með lítinn krúttlegan hvolp og við Sandra vorum í fimleikum úti í garði og hvolpurinn hélt að við værum að leika við hann og ég (Sara) varð svo hrædd við glefsið í honum að ég hljóp í gegnum glerið í gróðurhúsinu. Sama hvað við ofurvirku tvíburarnir gerðum munum við aldrei eftir að hafa séð eða heyrt þig skipta skapi. Svo þegar þú fluttir á Lækjargötuna niðri í bæ þegar við vorum að detta í unglingsaldurinn komum við oft til þín í strætó, okkur fannst geggjað að afi okkar byggi þar og komum við ósjaldan með vini með okkur í smá heimsókn, okkur fannst allir vinir okkar þurfa að kynnast yndislega afa okkar. Þú alltaf svo nýjungagjarn, hvort það var að eiga flottustu sjónvarpsgræjurnar, fara „niður“ á Tunglið þegar það var opnað og fá þér einn Breezer eða þegar Hard Rock var opnað og þú einn af þeim fyrstu að fá þér hamborgara þar.

Nú ertu kominn til elsku ömmu Höllu og við yljum okkur við allar fallegu minningarnar sem við eigum.

Sara og Sandra Heimisdætur.

Elsku tengdafaðir minn er látinn 94 ára að aldri. Mig langar að minnast þín með fáeinum orðum. Þú varst góður maður, stoltur af öllum þínum afkomendum og brostir þínu blíðasta þegar ég sagði þér frá mínum legg. Þú varst frekar lokaður og dálítið inni í þinni skel en áttir til að hrósa þegar þér fannst það við hæfi. Ekki má gleyma ást þinni á tónlist, sérstaklega óperu.

Þú skrifaðir svo fallega til mín á kortið þegar ég útskrifaðist og það geymi ég í hjarta mínu. Við áttum fallegar stundir saman bara við tvö, sem mér þykir svo vænt um, þær fara í minningabankann. Þegar hún Halla þín kvaddi okkur, sem var allt of snemma, vildir þú fara frá Garðabænum til Reykjavíkur á þínar æskuslóðir, keyptir þér fallega íbúð á Lækjargötunni þar sem þér leið vel. Þú bjóst þar þangað til heilsan fór en síðustu árin varstu á Hrafnistu. Þú varst hvíldinni feginn og ert væntanlega búinn að hitta hana Höllu þína. Ég kveð þig með þakklæti í huga. Guð geymi þig, elsku Rabbi minn.

Þín tengdadóttir,

Anna María.