Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson: "Þótt ég væri ekki lengur í sjónum en tiltölulega skamma stund, þá var mjög af mér dregið þegar bátnum hafði verið snúið til baka og tekist hafði að draga mig upp í bátinn."

Það er skelfileg tilfinning að uppgötva að maður sé fastur í veiðarfærum sem verið er að keyra út á fullri ferð og muni dragast fyrir borð á næsta augnabliki. Það varð mér þó til lífs að ég náði að kalla fram á dekk hvað væri að gerast og ná jafnframt, þegar í sjóinn var komið, að losna við lykkjuna á dragnótartóginu, sem herst hafði að fótleggnum.

Þótt ég væri ekki lengur í sjónum en tiltölulega skamma stund, þá var mjög af mér dregið þegar bátnum hafði verið snúið til baka og tekist hafði að draga mig upp í bátinn. Ég hugsa með hryllingi til þess ef ekki hefði heyrst í mér kallið fyrir vélarhávaðanum og mín beðið þar með þau örlög að örmagnast á sundinu og drukkna. Sökkva síðan til botns og hvíla í votri gröf, sem því miður hafa orðið örlög margra sjómanna, sérstaklega áður fyrr. Blessuð sé minning þeirra allra.

Það liggur fyrir að hefðu skipsfélagar mínir ekki heyrt í mér, en uppgötvað síðar að ég væri ekki lengur um borð, þá hefði strax verið hafin leit að mér í sjónum, svo lengi sem fræðilegur möguleiki væri á því og rúmlega það að ég gæti hafa haldið mér á floti með einhverjum hætti. Eftir það væri ljóst að ég hefði drukknað og sokkið til botns. Af þeim ástæðum hefði þá ekki verið kostað til leitar með skipum og flugfarartækjum, hvað þá sólarhringum saman, þar sem ljóst lægi fyrir í upphafi að ekkert yrði að finna á yfirborði sjávar. Jafnframt sem slík kostnaðarsöm leit skilaði því miður engu og hefði þar af leiðandi engan tilgang. Óskhyggja breytti þar engu um. Að sjálfsögðu hefðu menn haft fulla samúð með aðstandendum mínum og skilning á því að þeirra ósk væri eðlilega sú að lík mitt fyndist svo hægt væri að jarðsetja mig í vígðri mold.

Nú nýlega varð það hörmulega slys að maður féll fyrir borð á fiskiskipi og votta ég aðstandendum hans innilega samúð mína. Ég tel þó því miður að ekkert hafi breyst frá því að ég lenti í sjónum á sínum tíma, eins og rakið er hér að framan. Að leita að látnum skipverja á yfirborði sjávar um stórt hafsvæði dögum saman hafi því fyrirsjáanlega og því miður ekki getað skilað neinum árangri. Aðeins haft í för með sér mikinn kostnað, eins og fullljóst mátti vera frá upphafi. Væri fróðlegt að fá að vita, þótt ekki væri nema það, hver heildarkostnaðurinn var af þyrlufluginu alla þessa daga sem leitin stóð yfir.

Hér verður eins og alltaf að leggja ríka áherslu á það að í öllum tilvikum verða menn að vera raunsæir og láta raunveruleikann ráða ferðinni. Breytir engu þótt um sorgaratburði og afar viðkvæm mál sé að ræða og menn vilji sýna viðkomandi alla þá hluttekningu, samstöðu og hjálp sem framast má til að létta þeim sorgina.

Höfundur er lögfræðingur og sat í Rannsóknarnefnd sjóslysa 1972-1985.

Höf.: Jónas Haraldsson