Böðvar Magnússon fæddist 9. mars 1940. Hann lést 26. nóvember 2022.
Útför hans fór fram 9. desember 2022.
Ég kynntist Böðvari árið 2000 þegar ég fékk það verkefni í starfi mínu hjá Hrafnistu að ráða nýjan starfsmann til að sjá um félagsstarfið á Hrafnistu í Hafnarfirði. Ég kunni strax mjög vel við þennan grannvaxna brosmilda mann með glettnisglampa í augunum enda kom fljótlega í ljós að þarna hafði valist frábær maður til starfsins. Þegar ég lít til baka er í raun ótrúlegt hverju hann gat áorkað. Það voru aldrei hindranir hjá honum Böðvari, bara lausnir. Allt unnið á svo jákvæðan hátt og þannig að allt virtist svo auðvelt
Böðvar stofnaði fljótlega Hrafnistukórinn en í kórnum var heimilisfólk á Hrafnistu í Hafnarfirði og íbúar sem bjuggu á lóð heimilisins. Kórinn var mjög virkur undir stjórn Böðvars og fór víða til að halda tónleika þrátt fyrir að margir í kórnum væru lasburða. Ógleymanleg er ferð sem farin var á Sauðárkrók og sungið á nokkrum stöðum á leiðinni. Þetta var mikil ævintýraferð og lengi í minnum höfð. Ég sé enn fyrir mér hvað kórinn tók sig vel út í hvítum blússum og rauðum vestum, allir brosandi út að eyrum.
Böðvar stofnaði einnig DAS-bandið eins og það heitir og voru það harmonikkufélagar og/eða íbúar heimilisins og nágrannar sem spiluðu í því. DAS-bandið spilaði alltaf á föstudagsböllum fyrir íbúa og var oft mikið fjör á þeim böllum. Mér er minnisstætt þegar tónlistarmaður gleymdi að hann ætti að spila á haustfagnaði hjá Hrafnistu í Hafnarfirði sem er stór veisla með hátíðarmat og dansi. Þá kom DAS-bandið með engum fyrirvara og hélt frábært ball svo enginn fann fyrir að neitt vantaði. Þannig var Böðvar, málum var bara bjargað.
Böðvar kom á föstum myndlistarsýningum og voru sýnendur bæði listamenn og íbúar og var hver sýning opnuð með viðhöfn sem Böðvar stýrði af miklum myndarbrag. Böðvar lærði á píanó eftir að hann byrjaði hjá Hrafnistu svo hann gæti spilað undir í messum og við fleiri tilefni en hann hafði lært eitthvað á orgel sem barn. Ég gæti haldið lengi áfram hvað hann var mikilvægur fyrir starfið á Hrafnistu en læt hér staðar numið.
Ég kveð frábæran vinnufélaga og góðan vin með söknuði og þakka fyrir allar ógleymanlegu stundirnar. Sigrúnu og fjölskyldu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Soffía Egilsdóttir, umboðsmaður íbúa og aðstandenda Hrafnistu.