Jón Grímsson fæddist á 21. september 1954. Hann lést í Seattle í Bandaríkjunum 10. október 2021. Bálför Jóns fór fram 21. október 2021.

Það er ekki auðvelt að setjast niður til að skrifa nokkur orð um hann Nonna bróður minn. Hann var stórbrotinn persónuleiki. Nonni yfirgaf Ísland árið 1978 þar sem hann var ekki sáttur með útkomu kosninganna það árið.

Hann fór til San Francisco og það tók hann ekki langan tíma að komast til sjós þar. Síðan lá leið hans til Alaska þar sem hann réð sig á togara og ekki leið á löngu þar til hann var orðinn skipstjóri á togaranum. Hann vildi eignast sinn eigin togara. Unnið var sólarhringum saman við krabbaveiðar og eftir endalaust puð gat hann keypt sinn eigin togara. Hann stundaði veiðar á honum við strendur Alaska. Nonni vildi meira. Hann fór til Noregs og þar hannaði hann veiðarfæri sérstaklega til að veiða lúðu.

Lúðuveiðarnar gengu vel og allt var í blóma. En þá var sett bann við lúðuveiðum, sem varð til þess að Nonni fór á hausinn og missti togarann. Og þar með lauk sjómannsferli hans.

Nonni réð sig sem smiður hjá stóru byggingarfyrirtæki, hann var ekki búinn að vera þar lengi þegar hann var orðinn verkstjóri og sá um öll þau verk sem fyrirtækið tók að sér. Það vafðist ekki fyrir honum fremur en annað.

Eitt sinn keypti ég mér sumarbúðaland í Svíþjóð. Ég vildi stækka við mig og keypti mér tvö hús í öðru þorpi sem þurfti að taka niður á staðnum og flytja á sumarbúðalandið. Nú voru góð ráð dýr og ég gerði mér litla grein fyrir hvað ég var búin að koma mér út í. Ég hringdi til Ameríku og bað Nonna um hjálp. Nonni brá skjótt við og tók næstu vél til Svíþjóðar til að bjarga systur sinni.

Ég sakna hans bróður míns óendanlega mikið, við vorum eins og tvíburar enda aðeins tíu mánuðir á milli okkar.

Nonni barðist hatramlega við krabbameinið í tvö ár. Hann ætlaði ekki að gefast upp en eigi má sköpum renna, segir máltækið. Í veikindunum vildi hann koma til Íslands til að kveðja landið sitt og vini.

Hann lét sig hafa það og kom á heimaslóðir 14. ágúst, fárveikur og varð því að stytta dvölina hér og fara beint heim til að leggjast inn á spítala í Seattle.

Nonni dó í faðmi dóttur sinnar 10. október 2021.

Nonni bjó í Bandaríkjunum í tæp fjörutíu ár, hann fylgdist alltaf með fréttum frá Íslandi og hafði sterkar skoðanir á pólitík hér á landi. Knattspyrna átti sess í huga hans og hann ferðaðist frá Seattle til Frakklands þegar Íslendingar komust á EM 2016.

Nonni var vel upplýstur um flestalla hluti og hélt fast í skoðanir sínar. Hann þoldi ekki þetta óréttlæti sem heltekið hefur þjóðir heims og barðist fyrir réttlæti á öllum sviðum. Hann var svarinn óvinur Trumps.

Þar sem Nonni taldi sig utan allra trúarbragða var hann ekki kvaddur á hefðbundinn hátt. Haldin var minningarathöfn fyrir hann í Seattle, í garðinum hjá dóttur hans. Síðan var haldin minningarathöfn á heimili mínu í Garðabæ. Þar mættu ætingar og vinir og sungu saman eftir fyrirframákveðinni dagskrá. Síðasta lagið var Imagine eftir John Lennon.

Erfitt er að sætta sig við bróðurmissinn. Mér finnst það svo óraunverulegt að hann sé farinn.

Sigrún

Grímsdóttir.