Dagþór Haraldsson
Dagþór Haraldsson
Dagþór Haraldsson: "Glærusýning með tilþrifum á Hótel Hilton undir fyrirsögninni: „Gott að eldast“."

Ráðherrarnir Willum Þór og Guðmundur Ingi brugðu á leik hinn 5. desember sl. Samkvæmt kvöldfréttum á rúv voru þeir með glærusýningu á Hótel Hilton með „tilþrifum“ eins og rúv orðaði það. Boðskapurinn var: „Gott að eldast“. Markmið þeirra er að: Auka lífsgæði, bæta heilsu og auka virkni! Þetta átti að ske með „samþættingu atriða“ og þessum ferli átti að ljúka eftir fjögur ár! Þessir tveir ráðherrar hljóta að vera gjörsamlega sambandslausir við þann veruleika sem ríkisstjórnin á sök á.

Ég skrifaði grein í Morgunblaðið 31. maí sl. undir fyrirsögninni „Seldur mansali“ og önnur grein birtist 13. ágúst sl. undir fyrirsögninni „Raunir gamlingjans“. Báðar þessar greinar snerust um hvaða áhrif skerðingarnar hafa á líf og atvinnuþátttöku ellilífeyrisþega. Í seinni greininni sýndi ég fram á að sé unnið fyrir 500 þús. umfram leyfilegar 200 þús. á mánuði heldur ellilífeyrisþeginn í mínu dæmi eftir um það bil 20% af umframtekjunum. Til hins opinbera fara 190 þús. (skattar) og ellilífeyrisþeginn fær engan ellilífeyri lengur, sem var 212 þús. Sem sé: Hagur lífeyrisþegans batnar um 98 þús. en hins opinbera um 402 þús.

Ég hef verið á vinnumarkaði samfellt síðan ég var 16 ára og alltaf greitt í lífeyrissjóð (verð 73 á næsta ári). En þessar greiðslur hafa verið til „almennra“ lífeyrissjóða, sem ekki eru með ríkistryggðri verðtryggingu, og þessir almennu sjóðir mínir fóru illa í fjármálakrísunni 2008. Sem betur fer eru nokkrir samstarfsfélagar á svipuðum aldri sem ekki þurfa að hugsa um þetta. Þeir voru svo lánsamir að vera hjá ríkistryggðum lífeyrissjóðum (á ábyrgð almennra skattborgara) þannig að greiðslur til þeirra eru það háar að þeir eiga ekki rétt á lífeyri frá TR. Þeir borga bara skattinn eins og allir verða að gera. Þeir eiga sem sé 62% eftir skatt af sínu aukna vinnuframlagi.

Núna er ég búinn að fá nóg af því að láta hið opinbera hirða 80% af mínum auknu atvinnutekjum, þannig að héðan í frá vinn ég einungis fyrir 200 þús. á mánuði og hið opinbera tapar 190 þús. kr. skatttekjum og verður að fara að borga mér ellilífeyri upp á nýtt.

Það sem þessir verndarar „eldra fólks“ ekki skilja þrátt fyrir þeirra eigin glærusýningu er að með skerðingarkerfinu sem er núna í gangi eru þeir þvert á móti að vinna gegn þessum markmiðum sem þeir þykjast ætla að ná eftir fjögur ár. Já, fjögur ár. Þessi sýning var hreint út sagt hlægileg.

Vert er að minnast á að á forsíðu Morgunblaðsins 13. ágúst var grein sem hét: „Við þurfum fleiri eldri borgara út á vinnumarkaðinn“. Leyfið okkur, á þessum lélegu lífeyrissjóðsgreiðslum, einfaldlega að vinna án þessarar skerðingar, sem núna færir hinu opinbera 80% af okkar aukna atvinnuframlagi. Hið opinbera fær þá skattana í sinn vasa og við aukum lífsgæði, bætum heilsu og aukum virkni. Einfalt og þarf ekki að taka fjögur ár.

Höfundur er leiðsögumaður með erlenda ferðamenn. daggiharalds@gmail.com

Höf.: Dagþór Haraldsson