Guðríður Jóhanna Ólafía Júlíusdóttir fæddist á Bíldudal 23. júlí 1924. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 21. nóvember 2022.
Foreldrar hennar voru Júlíus Guðlaugsson, bóndi í Hokinsdal í Arnarfirði, f. 2.7. 1891, d. 5.9. 1931, og Jóhanna Guðrún Jóhannsdóttir frá Horni í Mosdal, f. 25.9. 1888, d. 23.1. 1969.
Systur Guðríðar voru Guðlaug Jóhanna, f. 12.1. 1916, d. 21.3. 1997, og Kristjana Sigríður, f. 4.9. 1917, d. 8.1. 2001.
Guðríður giftist 17.4. 1954 Ebenezer Val Kristjánssyni rafvirkja, f. 25.1. 1921, d. 1.2. 2009. Foreldrar Ebenezers Vals voru Kristján Ebenezersson, f. 27.4. 1893, frá Þernuvík í Ögurhreppi, d. 23.7. 1972, og Sigríður Einarsdóttir frá Lundi í Skildinganesi, f. 12.12. 1899, d. 10.7. 1970. Börn Guðríðar eru:
1) Jóhann Francis, f. 27.6. 1944, d. 6.5. 1950. 2) Júlíus, f. 23.10. 1953, maki Elinóra Inga Sigurðardóttir, börn þeirra: Heiðrún Ýrr, f. 1975, börn hennar Elinóra Inga, Colin Júlíus og Ísak Marvin. Maki: Atli Sveinn Lárusson. Íris Björk, f. 1979. Maki Ellert Þór Júlíusson, dætur þeirra eru Regína Rós og Júlíana. Sigurður Jón, f. 1989 maki: Ásta Þórðardóttir. Kristján Jóhann, f. 1995. 3) Sigríður, f. 10.11. 1955, d. 19.4. 2021, maki: Guðmundur Jón Elíasson, börn þeirra: Elías Freyr, f. 1979, maki Kristbjörg M. Kristinsdóttir, börn þeirra: Freyja, Guðmundur og Sólveig. Valur Árni, f. 1982, maki Lára Hrönn Hlynsdóttir, dóttir þeirra Sigríður Hrönn. Eva María, f. 1987, maki Guðmundur Freyr Aðalsteinsson, synir þeirra Theódór og Alexander. Elvar Jón, f. 1989, maki Þórgunnur Þórðardóttir, börn þeirra Emilía og Elmar. 4) Kristján, f. 10.12. 1959, maki Ástríður Helga Ingólfsdóttir, dætur þeirra: Júlía, f. 1988, maki Étienne Ljóni Poisson, sonur þeirra er Áslákur. Halla, f. 1994. Ellen, f. 1995.
Guðríður ólst upp á Bíldudal hjá móður sinni og systrum og hjá móðurömmu sinni og afa á Dynjanda í Arnarfirði. Hún missti föður sinn úr berklum á unga aldri og vann ýmis störf fyrir vestan, m.a. í rækjuvinnslunni og kaupfélaginu á Bíldudal o.fl. Eftir að hún fluttist til Reykjavíkur vann hún ýmis verslunarstörf, m.a. í Hressingarskálanum, við ræstingar í Verslunarbankanum og síðast í 16 ár við sjúkraliðastörf á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund.
Jarðarförin fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Mín kæra og hláturmilda tengdamóðir er látin 98 ára að aldri. Hún var að vestan, fædd á Bíldudal, yngst þriggja systra. Hún átti ekki auðvelda ævi framan af. Hún missti föður sinn sex ára úr berklum og lifðu þær mæðgur við þröngan kost. Gurra fór snemma að vinna m.a. í rækjuvinnslunni og í kaupfélaginu en sagði sjálf að ef hún hefði haft tækifæri á skólagöngu þá hefði hún farið í hjúkrun. Gurra missti fyrsta barnið sitt Jóhann, en hann var sex ára þegar hann drukknaði í höfninni á Bíldudal. Þetta hlýtur að hafa verið mikið áfall fyrir hana, en aldrei talaði hún um þetta né vorkenndi sér. Í þá daga bitu menn á jaxlinn og héldu áfram.
Ég var 17 ára þegar ég fór að venja komur mínar á Ásvallagötu til Júlíusar. Hún var ekki hrifin og lét mig alveg finna það, því sonurinn átti að mennta sig og ekki vera í einhverju stelpustússi. En þetta átti eftir að breytast og urðum við bestu vinkonur og gátum hlegið mikið saman. Gurra var einstakur húmoristi og sá alltaf spaugilegu hliðarnar á öllu. Hún átti það til að setja saman vísur og var einstaklega minnug og gat farið með heilu kvæðabálkana, hikstalaust, eitthvað sem hún lærði utan að í barnaskóla.
Gurra reyndist okkur einstaklega vel þegar hún tók að sér að passa Heiðrúnu, fyrsta barnabarnið, og gerði það í fjögur ár eða þangað til hún fékk sér vinnu á Grund sem sjúkraliði. Þar naut hún sín að vinna þar til hún var 76 ára og talaði oft um að sér þætti svo gaman að búa um rúmin og sinna gamla fólkinu. En þegar hún þurfti sjálf að fara á Grund fyrir tæpum tveimur árum var hún mjög ósátt og reið út í okkur fyrir að skilja sig þar eftir. En hún gat ekki lengur verið ein heima, næstum blind og heyrnarlaus.
Gurra missti mikið þegar Sigga dóttir hennar dó 2021 eftir stutt en erfið veikindi, hún átti mjög erfitt með að sætta sig við það og má eiginlega segja að hluti af henni hafi dáið með henni. Nú eru þær sameinaðar á ný í sumarlandinu.
Það er við hæfi að láta fylgja stöku sem Gurra fór oft með:
Hún amma mín er móðir hennar mömmu
en mamma er það besta sem ég á.
En gaman væri að gleðja hana ömmu
svo gleðibros á vanga henni sjá.
Hún segir mér oft sögur
þegar líða fer á nótt.
Syngur fyrir mig sálma og kvæðin fögur,
sofna ég þá vært og undurrótt.
(Höf. ók.)
Sigrúnu Faulk og starfsfólki Grundar þakka ég fyrir frábæra umönnun.
Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.
Elinóra Inga Sigurðardóttir.
Þrátt fyrir lífsins raunir var amma ávallt jákvæð og hlý í fasi og hélt ótrauð áfram með kímnina og hláturinn að vopni. Amma var stórkostleg persóna. Lágvaxin, fíngerð og ávallt elegant til fara. Hún hló dátt og mikið og það er víst að hláturinn lengdi líf hennar, þar sem hún virtist hafa níu líf eins og kötturinn. Heimili ömmu og afa á Ásvallagötunni bar mikinn vott um natni og glæsileika ömmu. Hún var ætíð hugulsemin uppmáluð og stjanaði við okkur, afkomendur sína, til hins ýtrasta. Það var ekkert kaffi án meðlætis. Jafnvel þegar hún var komin á Grund og krafturinn farinn að þverra, þá var það fyrsta sem hún sagði að hún skyldi fara fram og hella upp á kaffi fyrir okkur.
Ég hef ætíð sagt að ríkidæmi lífs míns sé fjölskyldan og varð ég þess aðnjótandi að fá mikinn tíma með ömmu alveg frá fyrstu tíð. Í stað þess að vera á leikskóla með jafnöldrum mínum fékk ég að vera í dekri hjá ömmu á Ásó. Mínar bestu minningar eru einmitt þaðan. Það var ekkert betra en að láta ömmu Gurru róa með sig. Þá söng hún og bíaði á mann og maður hvarf inn í óhulta draumaveröld. Á Ásó voru teknar skákir með afa Val og horft á enska boltann, spiluð spil með ömmu, ótal fjölskyldusamkundur, hangikjöt á jóladag, dansað á gamlárskvöld, heimsókn öll föstudagskvöld á menntaskólaárunum, kaffi og „meððí“ oft í viku og öll hlátrasköllin og allur kærleikurinn sem fylgdi með. Amma var sú sem breiddi yfir mann teppi þegar maður sofnaði á sófanum og strauk manni blíðlega um vangann og var alltaf sú fyrsta til þess að hringja þegar einhver í fjölskyldunni var veikur.
Amma bjó áfram á Ásó eftir fráfall afa og af sínum einskæra dugnaði hélt hún heimili alveg til 96 ára aldurs, án aðstoðar. Skaust niður í Kjötborg til að sækja nauðsynjar og hljóp upp tröppurnar með pokana án þess að blása úr nös. Amma var bæði ungleg og ung í anda og á níræðisafmælisdaginn sagði hún svo eftirminnilega: „Þegar ég verð orðin gömul þá ætla ég að minnast þess hversu gaman það var að vera níræð!“ Þetta var amma í hnotskurn.
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag, eins og segir í laginu og við fráfall nákominna myndast ónotalegar eyður í tilverunni. Tómarúm. Eins og nótur sem týnast úr uppáhaldslaginu. En með tíð og tíma koma nýjar nótur í stað þeirra eldri og mynda nýjan hljóm. Samvera með ömmu Gurru var afar stór þáttur í mínu lífi og ég á eftir að sakna þess að geta ekki kíkt til ömmu í kaffispjall og hlátursþerapíu. En svona er þetta og svona fer þetta.
Ég þakka þér elsku amma fyrir allt það sem þú gafst mér og ég bið góðan Guð að halda í höndina þína, eins og þú sagðir alltaf.
Þín
Heiðrún.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Að hjúkra gömlu fólki og lasburða er göfugt en stundum vanmetið starf. Vinnufélagi okkar Guðríður Júlíusdóttir (Gurra) var þó aldrei vanmetin, hvorki af vinnufélögum né skjólstæðingum. Hún starfaði við umönnun og hjúkrun aldraðra á Dvalar- og elliheimilinu Grund í tæpa tvo áratugi og var sjálf orðin öldruð er hún lét af störfum 76 ára. Hún lifði þó fram í háa elli og andaðist nýverið á Grund á 99 aldursári eftir stutta sjúkralegu. Það var okkur mikill heiður að kynnast Gurru og hún var mjög eftirminnilegur persónuleiki. Grund er sérstaklega góður vinnustaður og enn eru þar starfandi starfsmenn sem unnu með Gurru fyrir um 20 árum. Við minnumst hennar með hlýju og ástúð og það var okkur mikill heiður að fá að annast hana á lokametrunum. Hún var vinnusöm og traust, ávallt mætt fyrst á morgnana og búin að hella upp á kaffi þegar hinir mættu til starfa. Dillandi hláturinn ómaði um gangana og óhætt er að segja að hún hafi stundum verið pínu stríðin. Gamla fólkið elskaði hana og spurði oft um hana þegar hún átti frí. Gurra var ekki há vexti en afar sterk og vinnusöm. Hún lét sér mjög annt um gamla fólkið á Grund og hjúkraði og annaðist það eins og best verður á kosið og af sannri mannúð og hugsjón. Hún var lífsreynd og eldklár og hafði unun af því að endursegja sögur, stundum heilu sögurnar sem hún hafði lesið eða bíómyndir sem hún hafði séð í sjónvarpinu. Hún var þó ekki mjög félagslynd og snerist líf hennar að mestu um heimilið, börnin og barnabörnin sem voru öll stolt hennar og yndi. Alltaf var stutt í húmorinn og stuttu áður en hún dó varð henni að orði: „Er þetta ekki að verða búið? Mikið svakalega langar mig í sígarettu!“ Þessi hinsta ósk hennar var að sjálfsögðu uppfyllt. Við söknum öll hennar Gurru, hún var frábær vinnufélagi og afar góð manneskja. Við sendum aðstandendum hennar innilegar samúðarkveðjur.
Fyrrverandi samstarfskonur á Grund.
Fyrrverandi samstarfskonur á Grund.
Elsku amma Gurra mín. Ég sakna þín og hlátursins þíns. Alltaf komst maður í gott skap í nærveru þinni. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég skrifa þessi stuttu minningarorð um frábæra ömmu sem ég er svo ótrúlega þakklát fyrir að hafa átt að. Það er huggun að vita að þú ert sameinuð mömmu á ný.
Þín dótturdóttir,
Eva María.