Gísli Örn Gunnarsson fæddist 26. maí 1940. Hann lést 12. desember 2022. Útför hans fór fram 22. desember 2022.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þegar við Hafþór fórum að vera saman hafði ég ekki átt afa á lífi í nokkur ár, það var því kærkomið að kynnast Gísla og umhyggju hans og einlægum áhuga á fólkinu sínu. Ég ákvað því snemma, þó bara með sjálfri mér, að eigna mér part af honum líka. Hann spurði alltaf hvað væri að frétta af Skaganum eða að vestan og ég held að honum hafi nú ekki þótt leiðinlegt að fá Vestfirðing í fjölskylduna.

Strákarnir okkar Hafþórs minnast þín með hlýhug og munu sakna þess að gæða sér á vöfflum með þér eða spila við þig kúluspil.

Með þakklæti og kærleik í huga kveð ég þig Gísli minn – að vestan í þetta skipti.

Blessuð sé minning þín.

Tinna

Gunnarsdóttir.