Í áratugi hafa Íslendingar upplifað að nýju hina miklu þjóðernislegu vakningu frá 19. öld allt að stofnun lýðveldisins. Yfir þeirri þróun hvílir allt að því helgur rómantískur andi. Þá náðu skáldin og aðrir andans menn til fólksins. Það varð fyrsta, æðsta skylda þjóðarinnar að komið skyldi á frjálsu lýðræðislegu þjóðfélagi, svo sem og varð 17. júní 1944. Okkar bíður það hlutverk um aldur og ævi að varðveita það fjöregg og það undir síbreytilegum forsendum söguþróunar.
Íslenskt nútímaþjóðfélag reis þá er heimur allur varð að byggja upp eftir taumlausa eyðileggingu og þjóðamorð í seinni heimsstyrjöldinni. Endurreisn Evrópu sem beið eftir heimsstyrjöldina 1939-1945 varð að veruleika.
Óþarfi er að rekja söguna af þátttöku Íslands í NATO, samtökum hins frjálsa heims. Við erum ekki og verðum aldrei vopnum búin til að verjast vopnaárás. En lega okkar er strategísk í þeim mæli að hafa afgerandi þýðingu fyrir aðra. Það er athyglisvert að eftir hernaðarveru Bandaríkjanna á Íslandi frá 1941-2007 tóku Norðurlandaþjóðir fjórar að stunda, ásamt með Bandaríkjunum, eftirlitsflug með orrustuþotum sem staðsettar eru til skiptis í Keflavík.
Evrópusambandið er ekki beinlínis til varnar aðilum sínum þótt tilvist þess hljóti að virka mjög til öryggis. Það var upphaflega stofnað af sex ríkjum árið 1947 í þeim tilgangi að koma á sameiginlegum markaði þeirra aðila í tollabandalagi. Sambandið telur nú 27 aðildarríki, Bretland datt úr skaftinu en af Norðurlandaþjóðum eru Ísland og Noregur utangarðs. Upphaflega var það vegna fiskveiðilögsagna og afar ákveðinnar afstöðu Breta gegn stefnu okkar, en það heyrir til löngu liðinni fortíð.
Höfundur er fyrrverandi sendiherra.