Sæunn Ragnheiður Sveinsdóttir fæddist 23. júní 1930. Hún lést 4. desember 2022.

Útförin fór fram 14. desember 2022.

Ég minnist tengdamóður minnar, Sæunnar Ragnheiðar Sveinsdóttur, með hlýju og þakklæti fyrir umhyggju hennar og samfylgd í rúmlega 35 ár. Ég varð þess fljótt áskynja að fjölskyldan var þungamiðjan í lífi Sæunnar. Það var sama hver átti í hlut, heimilið á Sunnubraut var opið öllum enda var þar oft margt um manninn og mikið um að vera. Stór hluti stórfjölskyldunnar bjó utan höfuðborgarsvæðisins þannig að það var eðlilegasti hlutur í heimi að koma til Sæunnar og Ásgeirs í styttri eða lengri heimsókn. Alltaf stóð Sæunn klár með veitingarnar. Búin að hella upp á og baka enda húsmóðir af gamla skólanum. Það var enginn sem fór svangur úr hennar húsi. Á sama hátt var eðlilegt að hún kæmi fram um miðjar nætur þegar við Þór vorum að koma heim af balli til að fá sér kaffi með okkur og heyra sögur af skemmtuninni. Síðar þegar við Þór vorum flutt í Kópavoginn með dætur okkar þá var ekkert víst að þær kæmu beint heim úr skólanum því oft þurfti aðeins að koma við hjá ömmu fyrst.

En Sæunn átti líka önnur hugðarefni og ég var svo heppin að fá að deila einu með henni. Hún hafði yndi af tónlist og einkum og sér í lagi söng. Á árum áður hafði hún sungið í kórum Ólafsvíkurkirkju og Háteigskirkju. Um það leyti sem Sæunn hætti að vinna fór hún að syngja með Senjorítum, kór eldri kvenna sem er á vegum Kvennakórs Reykjavíkur. Nokkrum árum síðar tók ég við stjórn kórsins og naut þess að fá að kynnast Sæunni á annan hátt, óháð fjölskyldutengslum. Hún sinnti kórnum af stakri samviskusemi. Alltaf mætt, alltaf undirbúin og alltaf jákvæð. Formlegar æfingar voru einu sinni í viku en hún var fljótt komin í góðan hóp úr altinum sem hafði aukaæfingar heima til að tryggja að ekki stæði neitt upp á þær. Hún var oft ökumaður fyrir kórfélaga sem bjuggu í Kópavoginum og tryggði að þær væru mættar með góðum fyrirvara. Og svo var hún glaðlyndur félagi, alltaf brosandi og tilbúin í slaginn. Við ferðuðumst saman með kórnum og áttum saman dásamlegar minningar úr þessu starfi.

Sigrún

Þorgeirsdóttir.

Elsku amma er fallin frá.

Að standa sig vel og vera góð. Þetta voru ráðin sem amma gaf undir lokin og má með sanni segja að hún hafi fylgt þessum einkunnarorðum alla tíð. Amma var bjartsýn, jákvæð, með sterka réttlætiskennd og mátti ekkert aumt sjá. Hún setti metnað sinn í að halda heimili af miklum myndarskap og tryggja að öllum í kringum sig liði vel og hefðu það sem þau þörfnuðust, jafnvel þó það þýddi að hún setti sjálfa sig í annað sætið.

Þegar ráðrúm gafst var hún þó óhrædd við nýjar áskoranir eins og þegar hún fór til Bretlands um fimmtugt að læra ensku eða skráði sig í ræðufélag til læra að koma fram. Henni fórst allt vel úr hendi en var mjög lítið fyrir að vekja máls á því og vildi miklu frekar tala um hversu vel allir aðrir voru að standa sig.

Hún var afskaplega hlý og með manni í liði sama hvað bjátaði á. Hún var alltaf að gauka einhverju matarkyns að mér og ég man eftir ófáum hrærðum sveskjugrautum með rjóma, sem gátu lagað svo til allt. Einnig hvatti hún mig áfram bæði í skóla og tómstundum og fannst allt sem ég var að vasast í alveg frábært. Þetta var ekki einskorðað við mig heldur var hún stöðugt að hvetja okkur barnabörnin áfram, tryggja að okkur liði vel og sérstaklega að sjá til þess að við værum nú örugglega vel nærð.

Mér fannst mjög dýrmætt að fá að kynna hana fyrir mínum eigin börnum síðar meir og sjá þau fá sama stað í hjarta hennar og ég sjálfur naut. Þrátt fyrir að aldurinn hafi verið farinn að hafa áhrif á minnið hennar þegar börnin mín komu til sögunnar lét hún það ekkert á sig fá, lék með þeim á gólfinu og gladdist með þeim yfir öllu sem þau fengust við.

Það var virkilega sárt að horfa upp á elliglöpin sem hægt og bítandi sviptu hana minni og drógu úr persónuleika hennar síðustu árin. Á sama tíma var magnað að upplifa að þegar ekkert stóð eftir nema kjarni hennar var hann fullur af góðmennsku, umhyggjusemi og kærleik til allra þeirra sem heimsóttu hana. Hennar verður sárt saknað.

Ásgeir Gíslason.