Jón Reynir fæddist í Reykjavík 15. ágúst 1939. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 5. desember 2022. Foreldrar hans voru Hörður Gestsson, f. 2. október 1910, d. 6. mars 1975 og Halldóra Ólafsdóttir, f. 10. júní 1921, d. 29. maí 1951. Samfeðra systkin voru Margrét, f. 3. febrúar 1933, d. 28. janúar 1934, Vilborg, f. 13. september 1935, d. 15. ágúst 2002 og Helga, f. 30. október 1936, d. 8. febrúar 2016. Kjörforeldrar Jóns Reynis voru hjónin Eyjólfur Gíslason, f. 2. mars 1876, d. 25. september 1960, og Þuríður Sigurgeirsdóttir, f. 30. júní 1896, d. 12. júní 1969, á Ytri-Þurá í Ölfusi.
Jón giftist Sigrúnu Jónsdóttur, f. 10. júlí 1937, þann 18. desember 1960. Þau skildu. Stjúpsonur Jóns er Stefnir Svan Guðnason, f. 1958, eiginkona hans er Ása Kristín Valsdóttir. Dóttir þeirra er Sigrún Ólöf, f. 1985, eiginmaður hennar er Jorge L. Bitelli og eiga þau tvær dætur, Juliu, f. 2017 og Ninu, f. 2020. Sonur Ásu er Ásgeir Fannar, f. 1978. Börn Jóns Reynis og Sigrúnar eru: 1) Jóna Ingibjörg, f. 1960, eiginmaður hennar er Þórir Jóhannsson. Dóttir þeirra er Sólrún Klara, f. 1997, unnusta hennar er Emilía Ingvadóttir. Sonur Jónu er Kári Svan Rafnsson, f. 1986. 2) Elfa Björk, f. 1961. Kjörmóðir Elfu er Katrín Guðmundsdóttir. 3) Eydís Þuríður, f. 1964, eiginmaður hennar er Gylfi Kristinn Sigurgeirsson. Sonur Gylfa er Gylfi Geir, f. 1991. Dóttir Eydísar er María Dís Guðmundsdóttir, f. 2001, unnusti hennar er Dominik Walicki, f. 2001. 4) Guðrún Halldóra, f. 1970, eiginmaður hennar er Julian Mark Williams. Þau eiga þrjú börn, öll fædd 1996: Atli Mark, unnusta hans er Birta Mjöll Antonsdóttir, f. 1999; Ingi Jón, sambýliskona hans er Kristjana Torfadóttir, f. 1998, og Sóley. Sambýliskona Jóns Reynis var Anna Ólöf Björgvinsdóttir, f. 18. ágúst 1946, d. 13. mars 2022. Börn Önnu eru: Jóhann Steinar Steinarsson, f. 1971 og Guðfinna Björg Steinarsdóttir, f. 1967.
Jón lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1961 og skipstjórnarprófi á varðskip ríkisins frá sama skóla árið 1965. Hann tók bóklegt flugleiðsögumannapróf frá skóla Pan American-flugfélagsins í Bandaríkjunum 1962. Jón hóf sjómennsku á ms. Heklu (I) sem háseti 1954-55 og síðar á skipum Skipadeildar SÍS 1955-59 og ýmsum skipum, íslenskum og erlendum, 1958-1961. Byrjaði sem stýrimaður á vs. Maríu Júlíu 1961 og var síðan stýrimaður á öllum varðskipum ríkisins til 1966. Stýrimaður, afleysingaskipstjóri og kafari á björgunarbát tryggingafélaganna ms. Goðanum 1966-1969. Stýrimaður og afleysingaskipstjóri á skipum Skipaútgerðar ríkisins 1969-1976. Þegar Vestmannaeyjaferjan ms. Herjólfur (II) kom ný til landsins, 1976, réðst Jón þangað sem skipstjóri. Hann var áfram skipstjóri á Herjólfi (III) sem hann sótti, ásamt áhöfn, 1992 til Flekkefjord í Noregi. Síðari ár starfaði Jón við eftirlit á vegum Fiskistofu, meðal annars á Flæmska hattinum, og sem vaktmaður í Helguvík á Reykjanesi.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey að viðstöddum ástvinum.
Það er eiginlega hálfsúrrealísk tilfinning, meyr og með kökk í hálsi, að ætla að skrifa minningarorð um pabba minn sem litaði líf mitt á svo marga kanta og vegu.
Á ljósmynd má sjá drenghnokka, kannski sex mánaða, sem horfir beint í myndavélina stórum augum, spyrjandi á svip. Snáðinn situr flötum beinum, í sínu fínasta pússi, með stóran hvítan bómullarkraga um hálsinn, íklæddur síðri fagurlega prjónaðri peysu, sokkabuxum, ullarstuttbuxum þar yfir og á fótum með fallega prjónaða hvíta leista. Kannski er myndin tekin um það leyti sem pabbi var settur í kjörfóstur til eldri hjóna uppi í sveit. Móðir ætlar syni sínum betra líf og vill eiga mynd af honum til minningar. Eða kannski voru það Þuríður og Eyjólfur, væntanlegir kjörforeldrar hans, sem fóru með hann í myndatöku þegar pabbi kom inn í þeirra líf á Ytri-Þurá í Ölfusi.
Leiðarljós góðra minninga. Ég er „tjónka í húsi“, það kallar pabbi mig þegar ég sem lítil stelpa fíflast með honum undir sæng með vasaljós. Pabbi færir mér djúprauðan silkistranga og gyllta eyrnalokka frá Indlandi. Hann skrifar á umboðsblað til mín „komdu sæl dóttir mín traust og góð“, sem hann undirritar „pabbi litli“. Hann hringir í mig á fæðingardeildina á Hilleröd-sjúkrahúsið í Danmörku og sendir mér einnig fallegan blómvönd daginn sem hún Sólrún mín fæðist.
Góðar minningar eru þarna en það skal segjast að pabbi varð æ meiri „pabbi“ eftir því sem árin liðu. Umhyggja og væntumþykja hans í minn garð virtist stækka um mörg númer, varð einhvern veginn áþreifanlegri þegar barnabörnin komu í heiminn. Þá var hann til staðar ef þurfti á að halda, velferð okkar skipti hann máli. Á annarri ljósmynd er pabbi að rúnta um Stórhöfða í Vestmannaeyjum með okkur Kára Svan, syni mínum, á kagganum sínum, Cadillac Coupe de Ville '85-árgerð. Pabbi ók um eins og kóngur á þeim kagga, rétt eins og hann sigldi sem skipstjóri á Herjólfi í áratugi. Hann þótti afburða fær og öruggur sem skipstjóri og átti farsælan feril alla tíð á sjó.
Pabbi naut ferðalaga um heiminn með Önnu sinni en hafði sérstakt dálæti á skemmtiferðasiglingum til eyja Karíbahafsins. Og kræsingar á hlaðborðunum voru ekkert slor. Hann hafði mikinn áhuga á sögu skipasiglinga og björgun skipa. Sumarbústaðurinn í Skorradal minnti helst á sjóminjasafn. Í sólskálanum heima hjá honum á Akurbraut stendur stórt módel af varðskipinu Maríu Júlíu í glerkassa ásamt ítarlegri sögu skipsins. Önnur áhugamál pabba voru frímerkja- og myntsöfnun og tungumálanám en hann dundaði sér við að læra spænsku, arabísku og þýsku.
Spólum hratt fram í tímann. Þriðja ljósmyndin sýnir okkur systur og maka með pabba og Önnu sambýliskonu hans að fagna áttræðisafmæli hans á fínum veitingastað, eins og kóngi sæmir. Það er kominn mýkri svipur á andlit pabba, það örlar á stolti og auðmýkt í brosi hans.
Elsku pabbi litli, nú umvefur kærleikurinn þig. Hvíl í friði.
Þín dóttir,
Jóna Ingibjörg.
Það er sárt til þess að hugsa að ég eigi ekki eftir að hitta hann framar. Ekki eiga samræður um pólitík og málefni líðandi stundar. Við gátum legið yfir þeim samræðum yfir kaffibolla eða í símanum svo tímunum skipti og oft voru þær nokkuð heitar því það kom alveg fyrir að við vorum ekki alltaf sammála. Það var gaman að rökræða við hann um ýmsa hluti, það kom blóðinu á hreyfingu og oft á tíðum voru hláturtaugarnar kitlaðar. Hann var með einstakan orðaforða sem hann notaði um menn og málefni og einstakan húmor. Það sem ég sakna þessara orðaskipta við hann.
Mamma og pabbi skildu þegar ég var stelpa og tengslin á milli okkar dofnuðu um tíma. Pabbi kynntist Önnu sinni og áttu þau farsæl 40 ár saman. En tengslin okkar pabba urðu sterk á ný, sérstaklega eftir að við Julian eignuðumst börnin okkar, þríburana, úti í Englandi. Þá var það hann fyrstur manna sem keypti flugmiða ásamt Önnu og við áttum saman góða daga með nýburunum. Það var ávallt hægt að treysta á umhyggju hans og góðvild. Síðan þegar við Julian keyptum húsið okkar í Garðabæ var hann okkur innan handar. Ætíð var hægt að leita til hans þegar þurfti að gera einhver verk eða leysa einhver vandamál. Hann var hjálpfús, kunni nánast svör við öllu og var einkar handlaginn maður.
Þrátt fyrir að skip og hafið hafi nánast átt hug hans allan þá var hann fróðleiksfús um aðra hluti eins og tungumál og ferðalög. Að auki hafði hann gríðarlegan áhuga á pólitík og fylgdist vel með henni úr öllum áttum. Ég minnist ferðalaganna sem við fórum í þegar ég var krakki með hlýju. Honum leiddist ekki sólin og að fara í alls konar skoðunarferðir. Upp úr 1980 var samt kominn smá leiði hjá honum á því að fara á sömu áfangastaðina eins og Mallorca og tóku þá við ferðalög á skemmtiferðaskipum. Þannig gat hann forvitnast um önnur lönd og menningu og ekki skemmdi fyrir að vera á lúxusfleytu þar sem hann fékk góðan mat.
Hann ferðaðist víða og hafði unun af því. Fyrir utan að kunna ensku og dönsku kunni hann spænsku og lærði arabísku og það hjálpaði honum á sínum ferðalögum að ná tengslum við heimamenn. Honum þótti stærðfræði skemmtileg og tók nokkur námskeið í henni, kominn yfir miðjan aldur. Síðan var hann mikill grúskari og safnari, safnaði m.a. frímerkjum í gríð og erg og var hann í sambandi við nokkrar stofnanir og fyrirtæki sem sendu honum þau. Hann var framsóknarmaður fram í fingurgóma allt þar til fóstureyðingafrumvarpið varð að lögum árið 2019 þá þótti honum fulllangt gengið í þeim efnum og sagði skilið við flokkinn sem honum annars þótti verulega vænt um.
Hann var einstakur maður, hann pabbi, og er hann nú kominn í sumarlandið fagra þar sem hann hittir Önnu sína og Birtu.
Þú, Guð, sem stýrir stjarnaher
og stjórnar veröldinni,
í straumi lífsins stýr þú mér
með sterkri hendi þinni.
Stýr mínu fari heilu heim
í höfn á friðarlandi,
þar mig í þinni gæslu geym
ó, Guð minn allsvaldandi.
(Vald. Briem)
Þín dóttir,
Guðrún Halldóra Jónsdóttir.
Nú hefurðu lagt augun þín aftur í síðasta sinn hér á jörð.
Margs er að minnast og það sem er efst í huga mér eru góðar minningar og allt sem ég lærði af þér og ætla ég að telja upp fáein atriði hér í þessum orðum mínum: Ég man að sem lítil stelpa kannski svona þriggja til fjögurra ára beið ég í ofvæni eftir því að þú kæmir af sjónum , því þar varstu oft lengi og jafnvel mánuð í einu, ég suðaði í mömmu og fékk að standa uppi á eldhúsborði í Skipasundi þar sem við áttum heima og svo stökk ég í fangið á þér þegar þú birtist og alltaf greipstu mig og ég hafnaði örugg í hlýju fangi þínu alsæl með að pabbi væri kominn heim. Svo man ég líka eftir að þú kenndir mér að ganga í hálku og ekki veitir af hér á þessu landi sem við búum á að kunna það. „Taktu bara alltaf stutt skref og hæg í hálku Eydís mín og þá dettur þú ekki.“ Þessu heilræði hef ég aldrei gleymt og hef kennt ótal samferðafólki mínu þetta ráð þitt síðan. Þú kenndir mér einnig að spara og eyða ekki í óþarfa hluti. Þú kenndir mér að kafa í sundlaug úti á Kanarí, þá var ég tíu ára og ég man hvað ég var stolt þegar mér tókst að halda í mér andanum alla leið yfir laugina og uppskar mikið og gott hrós frá þér að launum. Við gátum einnig átt í rökræðum oftar en ekki um stjórnmál í seinni tíð en fundum alltaf einhverja lendingu í samtölum okkar og vorum farin að brosa og jafnvel hlæja þegar við kvöddumst.
Þú varst ekki lengi veikur áður en þú lést en mikið var skrýtið að horfa á þig, þennan stóra og sterka mann sem aldrei hafði kennt sér neins meins um ævina að vera orðinn rúmlega áttræður og ganga við göngugrind. Hugur þinn var alltaf frjór og þú hafðir ótal áhugamál eins og að ferðast, hlusta á fallega tónlist bæði klassíska og svo slæddist Elvis Presley með og Mannakorn inn á milli. Það var gott að kynnast þér og fá að vera dóttir þín. Núna ertu kominn inn í Sumarlandið sæla eins og það er stundum nefnt og ég veit að Anna, ástin þín til 40 ára, og Birta ykkar, sem var yndisleg bichon frise-tík sem var hjá ykkur í 12 ár, taka vel á móti þér elsku pabbi. Við sjáumst hinum megin þegar minn tími kemur.
Hafðu þökk fyrir allt og hvíldu í friði. Þín dóttir Eydís.
Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Eydís Þuríður Jónsdóttir.
Þín
Sólrún Klara.