Almenningur óttast FBI sem nú óttast Musk

Elon Musk er ævintýralegur maður sem kemur víða við, þótt ungur sé. Hann er oft kynntur til sögu sem „ríkasti maður í heimi“. Því er bætt við síðustu mánuði, að þar sem á ýmsu hafi gengið við framleiðslu á rafmagnsbifreiðinni Teslu og óvænt kaup á „Twitter“ sé nú fjarri því að sá titill sé öruggur. En hvað sem fyrrnefndum fyrirtækjum líður hefur hann einnig séð um að skjóta geimförum út í geiminn og láta eldflaugina sem flutti þau lenda óskemmda á jörðinni að verki loknu, svo brúka megi hana á ný.

Musk keypti óvænt heimsfyrirtækið Twitter og afhjúpaði það síðan sem stórvafasamt fyrirtæki, svo að með ólíkindum var. Alríkislögreglan FBI, sem notið hefur óttablandinnar virðingar vestra, kemur ekki vel frá því. FBI nýtur þeirrar sérstöðu að lögum, að refsivert er að segja lögreglumanni þar ósatt og getur varðað þungri fangavist! Fyrrverandi forstjóri FBI montaði sig af því að hafa komið sínum mönnum inn í Hvíta húsið í tíð Trumps „sem hann hefði aldrei vogað sér að gera í tíð Obama“ og leiddi Flynn, öryggisráðgjafa forsetans, í gildru „og segja ósatt“ og hafði af honum eignir og frelsi með klækjum. Samkrull FBI-manna og Twitter var þó sýnu óþverralegra, en Musk er aðeins rétt byrjaður að afhjúpa þau verk. Líklegt er að nú eigi þingið þar næsta leik.