Bíða endurbyggingar Fjölmörg eldri og friðuð hús hafa verið endurgerð á seinni árum og þau jafnvel verið flutt á nýja grunna í nýjum hverfum.
Bíða endurbyggingar Fjölmörg eldri og friðuð hús hafa verið endurgerð á seinni árum og þau jafnvel verið flutt á nýja grunna í nýjum hverfum. — Morgunblaðið/Eggert
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Um áramótin tekur gildi mikilvæg breyting á lögum um menningarminjar frá árinu 2012. Tilgangur laganna er að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Helsta breytingin nú felur í sér að hin svokallaða 100 ára regla mun ekki gilda framvegis um hús og mannvirki.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Um áramótin tekur gildi mikilvæg breyting á lögum um menningarminjar frá árinu 2012. Tilgangur laganna er að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Helsta breytingin nú felur í sér að hin svokallaða 100 ára regla mun ekki gilda framvegis um hús og mannvirki.

Nú hljóðar 29. grein laganna svo: „Öll hús og mannvirki sem eru 100 ára eða eldri eru friðuð.“ Sú breyting verður á lögunum um áramótin að í stað orðanna „eru 100 ára eða eldri“ í 1. mgr. kemur: „byggð voru árið 1923 eða fyrr.“ Málsgrein númer tvö hljóðar svo: Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stofnuninni er heimilt að setja skilyrði um slíkar framkvæmdir eða gera tillögu um friðlýsingu umrædds húss eða mannvirkis.

Í greinargerð með frumvarpi að lagabreytingunni kom fram að aldursfriðunarákvæði kom fyrst fram í þjóðminjalögum, nr. 88/1989, þar sem sett var ákvæði um friðun fornleifa við 100 ára aldur.

Við gildistöku laganna frá 2012 miðaðist aldursfriðunarákvæðið við árið 1912 samkvæmt áðurnefndri 100 ára reglu. Með hverju árinu sem líður bætast því við nýjar fornminjar og fjölgun verður á aldursfriðuðum mannvirkjum, eðli málsins samkvæmt. Af því leiðir að stutt er í aldursfriðun mikils fjölda steinsteyptra húsa og annarra mannvirkja í þéttbýli og sveit, sem og innviða úr fjöldaframleiddum efnivið, svo sem gaddavírsgirðinga í sveitum landsins. Fágæti eykur varðveislugildi minja en hið gagnstæða dregur úr því, segir í greinargerðinni.

Ljóst sé að hvorki sé hægt né æskilegt að vernda allar menningarminjar og hús. Þá sé þörf á faglegum rökum fyrir vernd, ekki síst í ljósi þess að byggingarefni og verkhættir breyttust allnokkuð á þriðja áratug 20. aldar. Loks liggi fyrir að fjöldi aldursfriðaðra fornminja og mannvirkja á eftir að stóraukast ár hvert með þeim afleiðingum að álag á stjórnsýslu minjamála muni aukast töluvert. Slíkt gæti dregið úr getu til að fjalla á vandaðan hátt um öll mál og til lengri tíma haft neikvæð áhrif á hús, önnur mannvirki og fornminjar með hátt varðveislugildi sem sannarlega þurfi að vernda.

Lágt varðveislugildi?

Að óbreyttum lögum muni því líkur aukast á að hús og önnur mannvirki með lágt varðveislugildi njóti aldursfriðunar án þess að fagleg rök um vernd liggi að baki. Loks verður gerð breyting á 1. málsgrein 30. greinar laganna sem hér segir: Eigendum húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1940 eða fyrr, svo og forráðamönnum kirkna sem reistar voru 1940 eða fyrr, er skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson