Rigning Markaskorararnir Marcus Rashford og Anthony Martial fagna á Old Trafford í gærkvöldi.
Rigning Markaskorararnir Marcus Rashford og Anthony Martial fagna á Old Trafford í gærkvöldi. — AFP/Oli Scarff
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Manchester United vann afar sannfærandi 3:0-sigur á Nottingham Forest er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöldi. Marcus Rashford og Anthony Martial skoruðu fyrstu tvö mörk United á fyrstu 22 mínútunum og var eftirleikurinn auðveldur fyrir heimamenn

England

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Manchester United vann afar sannfærandi 3:0-sigur á Nottingham Forest er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöldi. Marcus Rashford og Anthony Martial skoruðu fyrstu tvö mörk United á fyrstu 22 mínútunum og var eftirleikurinn auðveldur fyrir heimamenn. Varamaðurinn Fred gulltryggði þriggja marka sigur með marki á 87. mínútu.

Rashford var besti maður United í leiknum, því hann skoraði fyrsta markið sjálfur og lagði upp annað markið á Martial. Enski sóknarmaðurinn finnur sig mun betur undir stjórn Eriks ten Hag, en margir stuðningsmenn United vildu losna við Rashford eftir síðustu leiktíð er hann skoraði aðeins fjögur mörk í deildinni. Hann er kominn með fimm á þessu tímabili og búinn að leggja upp þrjú til viðbótar. Þá er hann búinn að skora sjö mörk í öllum keppnum í síðustu níu leikjum.

United hefur unnið fjóra leiki í röð í öllum keppnum og er nú aðeins einu stigi á eftir Tottenham í fjórða sæti. Ljóst er að liðið ætlar sér ekki annað tímabil í Evrópudeildinni. Þá virðist spilamennskan betri eftir að Cristiano Ronaldo yfirgaf félagið og aðrir leikmenn fengið að blómstra í staðinn.

Nottingham Forest hefur aðeins skorað eitt mark á útivelli á allri leiktíðinni og er með verstu markatöluna í deildinni. Liðið er þó aðeins einu stigi frá öruggu sæti og tímabil nýliðanna ræðst ekki á leikjum á útivelli gegn Manchester United.

Fríið kom á góðum tíma

HM-fríið virtist koma á hárréttum tíma fyrir Chelsea, því liðið tapaði þremur leikjum í röð fyrir hléið, en vann sannfærandi 2:0-sigur á Bournemouth í gær. Kai Havertz kom Chelsea yfir á 16. mínútu og lagði upp annað markið á Mason Mount, átta mínútum síðar. Þrátt fyrir sigurinn er Chelsea í áttunda sæti með 24 stig, fimm stigum á eftir Manchester United.

Leikurinn í gær gaf hins vegar góð fyrirheit fyrir framhaldið hjá Chelsea, þar sem frammistaðan var góð, þótt andstæðingurinn hafi vissulega ekki verið í hæsta gæðaflokki.

Ljóst er að Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley ætla að vera með í deildinni á næstu leiktíð. Burnley vann sannfærandi 3:0-sigur á Birmingham á heimavelli í B-deildinni. Liðið hefur unnið fjóra leiki í röð, og skorað þrjú mörk í þeim öllum. Burnley er í toppsætinu með 50 stig, ellefu stigum fyrir ofan þriðja sæti, en efstu tvö liðin fara beint upp í úrvalsdeildina. Jóhann Berg kom inn á undir lokin í gær, en hann hefur verið notaður nokkuð sparlega á tímabilinu, enda mikið glímt við meiðsli.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson