— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Flugeldasala björgunarsveitanna hefst í dag, 28. desember, og í gær var björgunarsveitarfólk víða að undirbúa vertíðina sem fram undan er. Í Reykjavík er salan í höndum Björgunarsveitarinnar Ársæls, Hjálparsveitar skáta og Flugbjörgunarsveitarinnar

Flugeldasala björgunarsveitanna hefst í dag, 28. desember, og í gær var björgunarsveitarfólk víða að undirbúa vertíðina sem fram undan er. Í Reykjavík er salan í höndum Björgunarsveitarinnar Ársæls, Hjálparsveitar skáta og Flugbjörgunarsveitarinnar.

Hefðum samkvæmt hefur hver þessara sveita sína föstu sölustaði; í bækistöðvum sínum og svo á fjölförnum stöðum í borginni. Á myndinni sjást félagar í Flugbjörgunarsveitinni flytja flugeldakassa inn í bækistöðvarnar við Flugvallarveg þar sem aðalsölustaðurinn er en sveitin er einnig með sölustaði við Kringluna, í Mjódd og Norðlingaholti.

„Veðurspáin fyrir gamlárskvöld er ágæt. Hér í borginni má gera ráð fyrir að verði heiðskírt en þá er líka óskandi að vind hreyfi eitthvað svo sá reykur sem flugeldarnir skilja eftir sig fjúki burt,“ segir Ingvi Stígsson gjaldkeri Flugbjörgunarsveitarinnar í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að um 100 manns komi að sölustarfi sveitarinnar nú fyrir áramótin.

„Það er auðvitað misjafnt fyrir hvaða upphæðir fólk kaupir flugelda. Hjá sumum eru þetta litlar tölur en í öðrum tilvikum hundruð þúsunda króna. Annars gæti ég trúað að hefðbundin flugeldakaup hvers viðskiptavinar séu upp á 50-60 þúsund krónur,“ segir Ingvi. sbs@mbl.is