Afmælisbarnið Oddný Eir hefur gefið út á annan tug skáldverka.
Afmælisbarnið Oddný Eir hefur gefið út á annan tug skáldverka. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Oddný Eir Ævarsdóttir fæddist 28. desember 1972 í Reykjavík og bjó lengst af æsku sinnar í goðahverfinu en frá fimm til sjö ára í Aix-en-Provence í Suður-Frakklandi þar sem móðir hennar stundaði nám í myndlist

Oddný Eir Ævarsdóttir fæddist 28. desember 1972 í Reykjavík og bjó lengst af æsku sinnar í goðahverfinu en frá fimm til sjö ára í Aix-en-Provence í Suður-Frakklandi þar sem móðir hennar stundaði nám í myndlist.

Síðan fluttist fjölskyldan aftur til Íslands og bjó á Hólsfjöllum í eitt ár þar sem Oddný gekk í Grunnskóla Fjallahrepps ásamt fjórum öðrum nemendum frá Grímsstöðum og Möðrudal á Fjöllum, en foreldrar hennar voru kennarar þar. Lokaprófið fólst í uppsetningu á brúðuleikhúsi um fortíð og framtíð sveitarinnar.

Síðan gekk Oddný í Austurbæjarskóla og naut uppfræðslu Sveinbjörns Markússonar sem bauð henni að taka prófin fyrr á vorin til að geta farið í sauðburð upp á Hólsfjöll. Oddný fór síðan í Menntaskólann við Hamrahlíð og söng þar með Kór menntaskólans og síðar Hamrahlíðarkórnum. Oddný vann samhliða námi við þáttagerð í Ríkisútvarpinu. „Ég fór nær öll kvöld á tónleika með Heiðu vinkonu minni og reyndi svo að gera tilraunatónlistinni skil í útvarpinu.“

Oddný útskrifaðist frá Háskóla Íslands með BA-gráðu í heimspeki og almennri bókmenntafræði. Hún hélt þá til Ungverjalands og lagði stund á ungversku í eitt ár. Oddný stundaði mastersnám í stjórnmálaheimspeki við Háskóla Íslands og í Stokkhólmi en fékk síðan styrk frá franska ríkinu til doktorsnáms í París. Oddný útskrifaðist með minni doktorsgráðu í heimspeki frá Sorbonne-háskóla og vann síðan í nokkur ár að ritun doktorsritgerðar sinnar um gjöf einstaklinga til opinberra safna og grisjunarstefnu skjalasafna. Oddný flutti þá til New York þar sem hún opnaði sýningarrými og bókverkasmiðju á heimili sínu ásamt bróður sínum, Ugga Ævarssyni, í nafni útgáfu þeirra Apaflösu, en þau settu upp fimm sýningar íslenskra kvenna með tengsl við New York.

Undanfarin ár hefur Oddný búið á Íslandi, bæði undir Eyjafjöllum og í Reykjavík, og hefur auk þess starfað sem rithöfundur, ritstjóri, sýningarstjóri og kennari í Listaháskólanum og Háskóla Íslands, kennt börnum skuggabrúðuleikhús og unnið að skráningu við Byggðasafnið í Skógum undir farsælli handleiðslu meistara Þórðar Tómassonar. Oddný heldur enn tengslum við Eyjafjöllin, við vini sína í Skógum, og á nokkrar geitur í farsælu samstarfi við eyfellska bændur.

Oddný hefur hlotið laun og verðlaun fyrir ritstörf sín en hún hefur gefið út á annan tug skáldverka. „Þau eru flest með sjálfsævisögulegu sniði þar sem eitt helsta áhugamál mitt er rannsókn á fjölbreytilegum frásagnarháttum, og því hvernig við spinnum sögu okkar.“

Oddný hefur beitt sér fyrir náttúruvernd á Íslandi og vann að framgangi sprotafyrirtækja á sviði nýsköpunar og náttúruverndar ásamt Björk Guðmundsdóttur.

Hún er um þessar mundir að gefa út þrjár ljóðabækur sínar hjá eigin útgáfu, Eirormi, sem hyggst gefa út fleiri verk á komandi ári. „En ég er fyrst og fremst móðir míns góða drengs, Ævars Ugga Magnússonar, sem ég var svo lánsöm að eignast, á gamals aldri, hann er Eyfellingur að ætt og á áttunda ári.“

Oddný hefur jafnan farið á skauta á afmæli sínu og ætlar að halda uppteknum hætti og bruna um ísinn með syni sínum og þeirra nánustu og bjóða þeim upp á vöfflur á heimili sínu í goðahverfinu í Reykjavík og spila á harmóníum og víólu. Oddný gaf sjálfri sér í afmælisgjöf seinna bindi safnrits Kvæðamannafélagsins Iðunnar sem langamma hennar Anna Bjarnadóttir tók þátt í að stofna. „Ég stefni á að læra öll kvæðalögin fyrir sextugsafmælið.“

Fjölskylda

Sonur Oddnýjar er Ævar Uggi Magnússon, f. 10.5. 2015. Faðir hans er Magnús Guðjón Hilmarsson, f. 28.12. 1963.

Bróðir Oddnýjar er Uggi Ævarsson, f. 26.4. 1974, fornleifafræðingur og minjavörður, búsettur á Nönnugötu 4 í Reykjavík, æskuheimili þeirra systkina.

Foreldrar Oddnýjar eru hjónin Ævar Kjartansson, f. 26.8. 1950, fv. útvarpsmaður og guðfræðingur, og Guðrún Kristjánsdóttir, f. 22.8. 1959, myndlistarkona, fyrrverandi hjúkrunarfræðingur. Þau voru búsett lengst af á Nönnugötu 4 en nú á Skúlagötu 20 og Hlöðubergi á Skarðsströnd.