Fylgdarakstur Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru fyrir bílalest eftir að vegurinn var opnaður á ný í gær við Vík.
Fylgdarakstur Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru fyrir bílalest eftir að vegurinn var opnaður á ný í gær við Vík. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ferðaþjónustufyrirtæki verða fyrir miklu fjárhagstjóni þegar vegum sé lokað og því sé ávallt reynt að komast á leiðarenda. Ferðaþjónustufyrirtæki reyni þó alltaf að virða fyrirmæli viðbragðsaðila

Logi Sigurðarson

logis@mbl.is

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ferðaþjónustufyrirtæki verða fyrir miklu fjárhagstjóni þegar vegum sé lokað og því sé ávallt reynt að komast á leiðarenda.

Ferðaþjónustufyrirtæki reyni þó alltaf að virða fyrirmæli viðbragðsaðila. Rúta á vegum Hópbíla hunsaði tvisvar fyrirmæli björgunarsveita og festist tvívegis. Jóhannes segir þetta mál vera undantekningu.

„Ef það er hægt að fara, þá fara menn. Það er heilmikið fjárhagslegt tjón sem fyrirtæki verða fyrir ef ekki er hægt að fara í ferðir með fólk sem komið er sérstaklega til landsins um langa vegu til að upplifa Ísland.“ Jóhannes tekur dæmi um það að fyrirtæki tapaði þremur milljónum króna í gær þegar Hellisheiði var óvænt lokað í gærmorgun.

„Alltaf ákveðinn þrýstingur“

„Það er alltaf ákveðinn þrýstingur á það í svona rekstri að reyna að uppfylla það sem búið er að selja. Það er grundvallaratriði í öllum rekstri. Síðan verða fyrirtækin alltaf að reyna að gæta jafnvægis og meta aðstæður, það er bara eins og það er,“ segir hann.

Jóhannes segir óskandi að samskipti við Vegagerðina verði bætt en mikil þörf sé á meiri fyrirsjáanleika þegar kemur að lokunum vega. Betra sé að fá vondar fréttir en engar fréttir. „Okkur finnst hérna megin að samskiptin gætu verið betri þótt við berum virðingu fyrir því að það sé ekki hægt að stýra náttúrunni.“

Tilkynningar um mögulegar lokanir myndu að sögn hans bjóða ferðaþjónustufyrirtækjum upp á meiri sveigjanleika. Fyrirtæki gætu þá tekið meðvitaða ákvörðun um það hvort eigi að aflýsa ferðum eða taka áhættuna og vona að vegir lokist ekki.

Jóhannes segir aðspurður að samskipti við björgunarsveitir hafi að mestu leyti verið góð og allir í ferðaþjónustunni beri mikla virðingu fyrir þeim sem sinna því starfi. „Samskiptin eru alla jafna afskaplega góð, við höfum átt gott samstarf við Landsbjörg, til dæmis í gegnum Safetravel-verkefnið.“

Höf.: Logi Sigurðarson