Grande Sendrée frá Drappier er hágæðakampavín sem ætti að höfða til breiðs hóps.
Grande Sendrée frá Drappier er hágæðakampavín sem ætti að höfða til breiðs hóps.
Kannski kemur það lesendum á óvart að franskir kampavínsframleiðendur eru upp til hópa elskulegt, jarðbundið og indælt fólk. Það orð fer nefnilega af Frökkum að vera allt annað en hvers manns hugljúfi, og þar að auki þætti engum skrítið ef fólk sem…

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Kannski kemur það lesendum á óvart að franskir kampavínsframleiðendur eru upp til hópa elskulegt, jarðbundið og indælt fólk. Það orð fer nefnilega af Frökkum að vera allt annað en hvers manns hugljúfi, og þar að auki þætti engum skrítið ef fólk sem framleiðir eftirsótta lúxusvöru og rekur stór og stöndug fyrirtæki myndi líta stórt á sig.

Ef til vill er það tengingin við náttúruna sem hjálpar kampavínsbændunum að glata ekki jarðtengingunni. Þegar kemur að því að rækta vínviðinn hefur það jú ekkert upp á sig að vera með stæla og hortugheit: það eina sem gildir er að vinna vinnuna sína og fá fólk með sér í lið. Það virkar kannski í París að vera agalega snobbaður og merkilegur með sig, en í sveitahéröðunum sjá menn í gegnum þannig hegðun á augabragði.

Svo eru kampavínsfyrirtækin eldgömul fjölskyldufyrirtæki sem tekist hefur að halda gangandi kynslóð fram af kynslóð. Eins og með öll fjölskyldufyrirtæki þarf ekki meira til en eina óþæga kynslóð til að keðjan slitni og kannski er skýringin á því hvað kampavínsbændurnir eru viðkunnanlegir og dagfarsprúðir að þeir vínbændur sem tókst að innræta börnum sínum og barnabörnum góða siði voru þeir sem lögðu grunninn að þeim ættarveldum sem í dag bera af á frönskum kampavínsmarkaði.

Allt þetta tal um hvað kampavínsframleiðendur eru yndislegir kemur til af því að fyrr í vetur átti ég leið í gegnum Aube, syðsta hluta vínræktarhéraðsins Champagne, og notaði tækifærið til að koma við hjá Drappier, sem Arnar Sigurðsson flytur inn og selur á Sante.is. Sjaldan hef ég fengið jafnhlýjar viðtökur.

Víngerð Drappier er í bænum Urville, um 40 km austur af Troyes og meira en 100 km suður af Reims og Épernay þar sem stóru kampavínsmerkin eru með sínar bækistöðvar og hallir. Það skemmtilega orð fer af framleiðendunum í Aube að þeir leggja mikla áherslu á handverkið og vilja nostra við vínið sem þeir framleiða í tiltölulega litlu upplagi. Frekar en að fjöldaframleiða heilu skipsfarmana vilja ræktendurnir í Aube skapa kampavín í sérflokki með afgerandi persónuleika.

Þannig er einmitt Drappier: ástríðan skín í gegn í öllu því sem fyrirtækið tekur sér fyrir hendur og sköpunargleðin fær útrás í alls kyns skemmtilegum vörum eins og ósykurbætta Brut Nature- og Charles de Gaulle-kampavíninu en stríðshetjan de Gaulle hélt mikið upp á Drappier og dvaldist reglulega í héraðinu. Bæði þessi vín hafa verið til umfjöllunar í ViðskiptaMogganum og fengu glimmrandi umsögn.

Í senn aðgengilegt og margslungið

Merkilegasta vínið frá Drappier hlýtur samt að vera Grande Sendrée; framúrskarandi árgangsvín gert úr 55% Pinot Noir og 45% Chardonnay. Þrúgurnar eru lífrænt ræktaðar á litlum skika þar sem hestur er nýttur til að plægja í burtu arfann – hófarnir fara betur með jarðveginn en gúmmídekk. Um 35% af innihaldi flöskunnar þroskast í eikartunnum og í gerjunarferlinu sér sérfræðingur um að snúa hverri einustu flösku með höndunum í stað þess að nota vél. Loks er viðbættum sykri haldið í lágmarki og súlfatnotkun stillt í hóf svo að bragðeinkenni þrúgnanna fái sem best notið sín.

Meðal þeirra sem hafa kolfallið fyrir Grande Sendrée eru vínráðgjafar Frakklandsforseta. Hefur þetta hágæðakampavín verið hluti af vínsafni forsetahallarinnar frá árinu 2001 og er yfirleitt á boðstólum þegar þjóðhöfðingja ber að garði. Segir það heilmikið um gæðin að þegar vínsérfræðingurinn Virginie Routis tók við lyklunum að vínkjallaranum í Elysee-höll árið 2007, fyrst allra kvenna, tók hún vínsafnið rækilega í gegn en hélt Grande Sendrée áfram á sínum stalli.

Ég ákvað að fá mér Grande Sendrée, árg. 2012, með jólamatnum, og kom þar vel í ljós hversu fjölhæft þetta bráðgóða kampavín er því í aðalrétt var indverskt karrí. Alla jafna myndi ég forðast að drekka kampavín með svo rækilega krydduðum mat en Grande Sendrée gaf indverskum sósunum ekkert eftir. Er hér kannski komin skýringin á því af hverju vínið þykir svona ómissandi í forsetahöllinni enda nánast sama hvað kokkunum þar dettur í hug að galdra fram, Grande Sendrée ætti að passa vel með matnum. Þau hjá Drappier mæla þó með að drekka Grande Sendrée eitt og sér eða njóta með fiski, fugli, lambi, gæsalifrarkæfu og öðrum réttum í þeim dúr.

Um drykkinn er það að segja að bæði bragð, áferð og litur eru ákaflega klassísk, sopinn frískandi og ljúffengur og hægt að greina áhugaverða tóna og blæbrigði ef maður er með athyglina við sopann: í mínu tilviki var eins og peru- og eplatónar væru ríkjandi, en aðrir hafa bent á keim af jarðarberjasultu og jafnvel blóðappelsínu. Þetta er kampavín sem ætti að höfða bæði til byrjenda sem vilja einfaldlega skála í góðum drykk, og til hinna sem eru komnir ögn lengra í smakkinu og leita að dýpt og fjölbreytni í kampavíninu.

Hjá Sante má finna nokkrar flöskur af árgangi 2010 og kostar stykkið 9.300 kr.

Skyldu lesendur einhvern tíma eiga erindi til Troyes ættu þeir endilega að senda Drappier-fjölskyldunni línu og fá að kíkja í heimsókn. Drappier starfrækir litla gestamiðstöð og með smá heppni má fá að skoða kjallarann í fylgd leiðsögumanns og fræðast um hvert einasta skref í framleiðslunni. Er upplagt að ljúka heimsókninni með því að kaupa nokkrar flöskur á ögn hagstæðara verði en frönsku vínbúðirnar geta boðið.