Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur verið í eldlínunni á árinu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur verið í eldlínunni á árinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síminn lauk um miðjan september við sölu á dótturfélagi sínu, Mílu, til franska fjárfestingasjóðsins Ardian. Endanlegt söluverð var 69,5 milljarðar króna, sem er um 8,5 milljörðum króna lægra en það var þegar tilkynnt var um söluna í október 2021

Síminn lauk um miðjan september við sölu á dótturfélagi sínu, Mílu, til franska fjárfestingasjóðsins Ardian. Endanlegt söluverð var 69,5 milljarðar króna, sem er um 8,5 milljörðum króna lægra en það var þegar tilkynnt var um söluna í október 2021. Þá var áætlað söluverð Mílu um 78 milljarðar króna.

Salan á Mílu gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig og tók rúma ellefu mánuði. Meginþorrann af þeim töfum sem urðu á sölunni má rekja til málatilbúnaðar Samkeppniseftirlitsins sem hafði málið til meðferðar í rúmlega hálft ár. Í byrjun júlí setti stofnunin sig upp á móti sölunni í óbreyttri mynd. ViðskiptaMogginn greindi frá því um miðjan ágúst að Ardian íhugaði það alvarlega að hætta við kaupin þar sem verulegar tafir höfðu orðið á málinu og enn ríkti óvissa um það hvort Samkeppniseftirlitið myndi heimila kaupin og þá með hvaða fyrirvörum. Helsta athugasemd Samkeppniseftirlitsins sneri að einkakaupasamningi á milli Símans og Mílu sem gerður var samhliða sölunni. Sumir keppinautar Símans og Mílu töldu að samningurinn fæli í sér samkeppnishindranir og höfðu lýst því í greinargerðum sínum til Samkeppniseftirlitsins. Ljósleiðarinn, sem er opinbert félag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og í samkeppni við Mílu, gekk lengst í athugasemdum sínum og Samkeppniseftirlitið tók að mestu undir sjónarmið Ljósleiðarans. Undir lok árs gerði Ljósleiðarinn þó einkasölusamning við Sýn, eftir að hafa keypt grunnnet Sýnar með dýrri lántöku.

Síminn og Ardian komust þó að samkomulagi um miðjan september sem Samkeppniseftirlitið samþykkti. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að verðmiðinn á félaginu var lækkaður og einkasölusamningurinn styttur. Eftir söluna greiddi Síminn um 31,5 milljarða króna út til hluthafa sinna, þar af um 18 milljarða króna til lífeyrissjóða.

Það fjölgaði í Kauphöllinni á árinu þegar Ölgerðin, Nova og Alvotech voru skráð á markað. Skráning félaganna gekk þó misvel.

Um sjö þúsund hluthafar bættust í hluthafahóp Ölgerðarinnar eftir hlutafjárútboð í lok maí. Útboðið heppnaðist almennt vel, umframeftirspurn var fjórföld þegar tæplega 30% hlutur var seldur. Söluandvirðið nam um 7,9 milljörðum króna. Bréf Ölgerðarinnnar voru tekin til viðskipta í júní og hafa síðan þá hækkað um tæp 20%.

Í útboði Nova, sem lauk um miðjan júní, lá fyrir að selja um 37-45% hlut í félaginu, þar sem andvirði sölunnar gat verið á bilinu 7,2-8,7 milljarðar króna. Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn PT Capital var stærsti eigandi félagsins og ljóst var að sjóðurinn vildi með útboðinu losa um hlut sinn. Heildareftirpsurn eftir bréfum í Nova var tvöföld, n.t.t. þreföld í í tilboðsbók A, sem stóð minni fjárfestum til boða en rétt rúmlega einföld í tilboðsbók B, sem var ættluð stærri fjárfestum. Því var ljóst að stærri fjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir, sýndu útboðinu lítinn áhuga og voru bréf úr báðum tilboðsbókum seld á sama gengi. Þrátt fyrir það var útboðið stækkað um 20% á tilboðsbók A. Frá því að bréf félagsins voru tekin til viðskipta hafa þau lækkað um tæp 8%, en höfðu um tíma lækkað um tæp 18%.

Þá var líftæknifyrirtækið Alvotech skráð á First North-markaðinn í lok júní, en hafði viku fyrr einnig verið skráð í Nasdaq-kauphöllinni í New York. Tvö eignarhaldsfélög í meirihlutaeigu Róberts Wessmans fóru með 76% hlut í félaginu á fyrsta viðskiptadegi fyrirtækisins á markaði. Gengi bréfa í Alvotech tók dýfu fyrstu dagana á markaði og gengið var brösótt allt fram í nóvember. Félagið tók þó flugið undir lok nóvemer og hefur nú tvöfaldast að markaðsvirði á rúmum mánuði. Þá voru bréf félagsins flutt yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar í byrjun desember.

Loks var auðlindafélagið Amaroq Minerals skráð á First North-markaðinn í byrjun nóvember. Bréf Amaroq ruku upp um miðjan nóvember eftir tilkynningu um stóra málmæð á leitarsvæði félagsins á Grænlandi, og hefur frá skráningu hækkað um rúm 25%.

Í byrjun júní var tilkynnt að Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festar hefði sagt starfi sínu lausu og myndi láta af störfum 1. ágúst. Mörgum var þó fljótt ljóst að uppsögnin var ekki komin til að frumkvæði Eggerts Þórs, sem hafði starfað hjá félaginu og forvera þess í ellefu ár. Stjórn Festar var þögul um málið en ViðskiptaMogginn greindi frá því nokkrum dögum síðar að mikill pirringur væri meðal hluthafa félagsins yfir brottrekstri Eggerts Þórs, bæði meðal forsvarsmanna lífeyrissjóða og meðal minni hluthafa úr hópi einkafjárfesta. Pirringurinn sneri meðal annars að því að ekkert hafði heyrst frá stjórninni eftir að tilkynningin fór út og óljóst var með tilefni þess að forstjóranum var gert að víkja.

Guðjón Reynisson stjórnarformaður Festar sagði í viðtali við ViðskiptaMoggann í byrjun júlí að það væri mat stjórnar að þrátt fyrir að Eggert Þór hefði staðið sig vel í starfi forstjóra væri kominn tími á breytingar.

Nokkur átök áttu sér stað meðal hluthafa félagsins en stjórn Festar boðaði sjálf til hluthafafundar um miðjan júlí þar sem óskað var eftir endurnýjuðu umboði. Þar voru þau Guðjón og Margrét Guðmundsdóttir endurkjörin í stjórn (og Guðjón skipaður formaður á ný í kjölfarið) en þau Magnús Júlíusson, Sigurlína Ingvarsdóttir og Hjörleifur Pálsson komu ný inn í stjórnina. Ásta Fjeldsted, sem gegnt hafði starfi framkvæmdastjóra Krónunnar frá 2020, var ráðin forstjóri í byrjun september.

Yfirtaka á Sýn

Í lok júlí var tilkynnt að Heiðar Guðjónsson, forstjóri og stærsti einkahluthafinn í Sýn, hefði selt allan hlut sinn og sagt upp störfum hjá félaginu. Fjárfestingafélagið Gavia Invest, undir forystu Reynis Grétarssonar stofnanda Creditinfo og Jóns Skaftasonar fv. framkvæmdastjóra Strengs keypti hlut Heiðars og bætti við sig hlutum næstu daga á eftir. Óhætt er að segja að nýir hluthafar hafi komið inn með látum þótt Reynir hafi lýst því yfir í viðtali við Morgunblaðið um miðjan ágúst að ekki væri um óvinveitta yfirtöku að ræða. Gavia krafðist þó hluthafafundar og stjórnarkjörs í félaginu, og á hluthafafundi sem fram fór 31. ágúst var ný stjórn kjörin. Jón Skaftason kom nýr inn í stjórn í stað Hjörleifs Pálssonar sem gaf ekki kost á sér en að öðru leyti var stjórnin óbreytt. Athygli vakti að Jón náði kjöri en Reynir ekki.

Aðeins þremur vikum síðar óskaði hópur hluthafa þó eftir öðrum hluthafafundi og nýju stjórnarkjöri, en fundurinn fór fram 20. október. Nokkur skot flugu í aðdraganda fundarins. Rannveig Eir Einarsdóttir, forstjóri Reir verks, sem ásamt eiginmanni sínum Hilmari Þór Kristinssyni hafði keypt stóran hlut í Sýn, sagði í viðtali við ViðskiptaMogga að stjórn Sýnar hefði takmarkað umboð og endurspeglaði ekki vilja hluthafa. Petrea Ingileif Guðmundsdóttir stjórnarformaður Sýnar sagði í kjölfarið að stjórnin hefði skýrt umboð enda hefði nýlega farið fram hluthafafundur þar sem stjórnin hefði endurnýjað umboð sitt. Viku fyrir fundinn dró Petrea Ingileif framboð sitt til baka eftir að Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hafði sett eiginmanni hennar, Benedikt K. Magnússyni fjármálastjóra Orkuveitunnar, afarkosti vegna starfs síns ef hún héldi áfram í stjórn.

Þá var Yngvi Halldórsson ráðinn forstjóri Sýnar, áður en ný stjörn var kjörin, en hann hafði áður gegnt starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs hjá félaginu.

Á síðari hluthafafundinum voru Rannveig Eir og Hákon Stefánsson, framkvæmdastjóri Info Capital (sem er fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar), kjörin ný í stjörn. Jón Skaftason var í kjölfarið kjörinn nýr stjórnarformaður félagsins.

Salan á Tempo

Origo seldi byrjun október allan 40% eignarhlut sinn í hugbúnaðarfyrirtækinu Tempo til Diversis Tempo Holdings, sem er í eigu bandaríska tæknifjárfestingarsjóðsins Diversis Capital, fyrir ríflega 28 milljarða króna. Origo hafði áður selt meirihluta sinn í Tempo til bandaríska félagsins árið 2018. Origo greiddi í byrjun desember um 24 milljarða króna til hluthafa sinna í formi reiðufjár. Um miðjan desember keypti AU 22 ehf., sem er félag í eigu Alfa Framtaks, rúmlega fjórðungshlut í Origo. Félagið hefur í kjölfarið lagt fram valfrjálst tilboð í allt hlutafé félagsins. Samhliða því var tilkynnt að til greina kæmi að skrá félagið af markaði.

Konur í Kauphöll

Fjöldi kvenna sem verma forstjórastóla skráðra fyrirtækja í Kauphöll jókst úr einni og upp í þrjár á árinu. Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka var í upphafi árs sú eina, en hún hefur verið í stöðunni frá árinu 2008. Hún var fyrsta konan til að hljóta titilinn þegar bankinn var skráður á markað í fyrrasumar. Margrét B. Tryggvadóttir forstjóri Nova bættist í hópinn þegar fjarskiptafélagið var skráð á markað í júní síðastliðnum. Hún hefur gegnt stöðunni síðan 2018. Ásta Sigríður Fjeldsted tók við starfi forstjóra Festar í september, en hún hafði áður starfað sem framkvæmdastjóri Krónunnar. Ásta skráði sig á spjöld sögunnar sem fyrsta konan til að vera ráðin í forstjórastöðu skráðs félags, en þær sem á undan henni komu stýrðu félögunum fyrir skráningu á markað.

ÍL-sjóður í uppnámi

Þó að um stjórnmálafrétt sé að ræða verður ekki hjá því komist að rifja upp málefni Íbúðalánasjóðs (ÍL-sjóðs). Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tilkynnti um miðjan október að ríkissjóður þyrfti að öllu óbreyttu að leggja sjóðnum til um 450 milljarða króna á næstu 22 árum. Þá hefur Bjarni lagt til að sjóðnum verði slitið og skuldir hans gerðar upp ef ekki næst samkomulag við kröfuhafa sjóðsins, sem eru að mestu lífeyrisssjóðir, um að taka hann yfir enda blasi við gríðarlegt fjártjón sem falla muni á skattgreiðendur og framtíðarkynslóðir landsins ef ekkert verður að gert. Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, var ráðinn sem sérstakur milligöngumaður til að ræða við kröfuhafa sjóðsins.

Kröfuhafar hafa þó mótmælt þessari ráðstöfun og er málið enn óleyst. Þingmenn stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd Alþingis hafa óskað eftir lögfræðiáliti vegna málsins þar sem þeir vilja að lagt verði mat á það hvort lög heimili fjármálaráðherra að slíta sjóðnum ef ekki næst samkomulag við kröfuhafa.

Sala ríkisins á 22,5% hlut sínum í Íslandsbanka 22. mars á þessu ári er án efa sá viðskiptagjörningur sem mest hefur verið fjallað um á árinu. Ríkið seldi 35% hlut í bankanum fyrir rúma 55 milljarða króna sumarið 2021 í afar vel heppnuðu frumútboði. Það hafði legið fyrir að haldið yrði áfram með sölu í bankanum þótt ekki lægi fyrir hvenær og hvernig sú sala færi fram.

Föstudaginn 18. mars tilkynnti Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra að ákveðið hefði verið að hefja framhald sölumeðferðar bankans. Sú ákvörðun byggðist á greinargerð fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, en báðar nefndirnar höfðu fengið ítarlegar kynningar á fyrirhuguðu söluferli og þeim aðferðum sem hægt yrði að nota við söluna.

Nokkrum dögum síðar, 22. mars, var tilkynnt eftir lok markaða að söluferli með tilboðsfyrirkomulagi – sem er ein þeirra leiða sem kynntar höfðu verið fyrir þingnefndunum – væri hafið til innlendra og erlendra hæfra fjárfesta. Síðar um kvöldið er tilkynnt að 22,5% hlutur hafi verið seldur á genginu 117 kr. á hlut. Heildarandvirði sölunnar var um 53 milljarðar króna. Ríkið hafði því fengið í sinn hlut um 108 milljarða króna fyrir 57,5% hlut í bankanum á um níu mánaða tímabili.

Við fyrstu sýn virtist salan hafa heppnast vel. Ríkið náði markmiðum sínum um að losa um hluti í fjármálakerfinu og söluverðið þótti við hæfi. Fljótlega hófst þó nokkur óróleiki vegna sölunnar, þá helst á vettvangi stjórnmálanna en einnig innan fjármálakerfisins. Morgunblaðið flutti meðal annars fréttir af því að fjármálaeftirlit Seðlabankans væri með verklag söluráðgjafa í útboðinu til skoðunar. Sú athugun sendur enn yfir og lýkur að öllum líkindum ekki fyrr en á nýju ári.

Á vettvangi stjórnmálanna hefur meðal annars komið fram gagnrýni á leiðina sem farin var við söluna, svonefnda tilboðsleið. Þó hefur komið fram, meðal annars í ítarlegum fréttaflutningi Morgunblaðsins, að þingmenn í fjárlaganefnd sem og í efnahags- og viðskiptanefnd fengu ítarlegar kynningar á þeim leiðum sem hægt væri að fara við söluna, meðal annars á tilboðsleiðinni. Samhliða þessu stóð yfir kosningabarátta fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fram fóru um miðjan maí, og má ætla að umræðan um málið hafi tekið mið af því.

Fjármálaráðuneytið birti lista yfir þátttakendur í útboðinu 6. apríl sl. þar sem í ljós kom að 209 aðilar hefðu fjárfest í bankanum. Þar voru nokkur þekkt nöfn í viðskiptalífinu en mesta athygli vakti þó að faðir fjármálaráðherra hefði keypt hlut fyrir um 50 milljónir króna í gegnum fjárfestingafélag sitt. Þingmenn stjórnarandstöðunnar á Alþingi óskuðu um miðjan apríl eftir því að skipuð yrði rannsóknarnefnd um söluferlið. Meirihlutinn varð ekki við því en Alþingi óskaði þó eftir stjórnsýsluúttekt frá Ríkisendurskoðun um málið.

Ríkisendurskoðun birti úttekt sína, sem yfirleitt er vísað til sem skýrslu, um miðjan nóvember sl., rúmlega hálfu ári eftir að hennar var óskað. Skýrslan reyndist þó gagnrýnendum sölunnar vonbrigði því hún hafði lítið fram að færa annað en það sem legið hafði fyrir um nokkurn tíma. Í henni voru þó vangaveltur um að mögulega hefði verið hægt að fá hærra verð fyrir hlutinn en ekkert sem hönd var á festandi. Almenn niðurstaða skýrslunnar er sú að fjárhagsleg niðurstaða af sölunni hafi verið ríkinu hagfelld og ekki koma fram dæmi um að farið hafi verið á svig við lög eða stjórnsýslureglur. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur skýrsluna nú til umfjöllunar og hefur kallað til sín fjölda gesta vegna málsins. Ekki liggur fyrir hvenær eða með hvaða hætti nefndin lýkur umfjöllun sinni um skýrsluna.

ViðskiptaMogginn greindi frá því að Ríkisendurskoðandi neitaði að gefa upp launakostnað eða ráðningarkjör Jóns Þórs Sturlusonar, deildarforseta viðskiptadeildar HR og fv. aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, við gerð skýrslunnar. Jón Þór hefur áður gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna og vakti ráðning hans við gerð skýrslunnar því nokkra athygli.

Það sem eftir stendur er að ríkið á enn 42,5% hlut í Íslandsbanka og enn er stefnt að því að losa um þann hlut. Hvenær það verður og með hvaða fyrirkomulagi liggur þó ekki fyrir.

Áhrifin af innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar komu fljótt fram hér á landi. Nokkur ringulreið greip um sig á hlutabréfamarkaði, sjávarútvegsfélögin lækkuðu nokkuð skarpt fyrstu dagana og það gerðu einnig félög á borð við Eimskip og Icelandair. Það ríkti nokkur óvissa um það hvort – og þá hver áhrifin yrðu á sölu íslenskra sjávarafurða, hvort að hægt væri að halda uppi flutningaleiðum og flótlega eftir að innrásin hófst fór eldsneytisverð að hækka og óttast var að það myndi hafa neikvæð áhrif á afkomu flugfélaganna. Allt gekk þetta þó nokkuð hratt yfir, þótt eldsneytisverð hafi sveiflast mikið á árinu. Sumarið var gott þegar horft er til ferðaþjónustu og fljótlega kom í ljós að stríðið myndi hafa takmörkuð áhrif á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja.

Ísland hefur þó ekki farið varhluta af hækkandi verðbólgu, sem að mestu leyti má rekja til mikilar peningaprentunar á tíma kórónuveirufaraldursins og aukinna útgjalda vestrænna ríkja meðan á faraldrinum stóð. Hér á landi bættist við að verðbólga var að miklu leyti innflutt á fyrri hluta ársins. Tólf mánaða verðbólga hér á landi mældist um 5% í upphafi ársins en er nú, undir lok árs, 9,6%. Hæst fór hún í 9,9% í júlí sl. Svo mikil verðbólga hefur ekki mælst á landinu í 13 ár. Seðlabanki Íslands hefur samhliða þessari þróun hækkað stýrivexti verulega, þeir voru í upphafi ársins 2% en eru nú 6%. Greiningaraðilar gera ráð fyrir hjaðnandi verðbólgu á nýju ári, en þó ekki fyrr en á síðari hluta ársins.

Fyrri hluti ársins einkenndist að miklu leyti af miklum hækkunum á húsnæðismarkaði þótt hægt hafi á þeirri hækkun á síðari hluta ársins. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur þó hækkað um rúm 20% á einu ári.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur verið mikið áberandi á árinu. Hann hefur staðið í stafni við hækkun stýrivaxta og samhliða því veitt þjóðinni föðurleg ráð, svo það sé vandlega orðað, um eyðslu og sparnað. Fræg eru ummæli hans um tásumyndir frá Tenerife en svo virðist sem þjóðin sé heilt yfir ekki að hlusta á viðvaranir Ásgeirs. Morgunblaðið greindi nýlega frá því að aldrei hefðu fleiri Íslendingar farið utan en í október á þessu ári. Ásgeir nýtur þó bæði trausts og vinsælda ef undan er skilið forystufólk í verkaðlýðshreyfingunni sem hefur ekki sparað stóru orðin í hans garð. Hann hefur þó sagt að hann vonist til þess að vaxtahækkunarferlinu sé lokið, en þó tekið fram að hann væri ekki hræddur við að hækka vexti frekar ef þörf krefur. Það er því ljóst að það mun áfram mikið á honum mæða á nýju ári.