40 ára Fríða Sigríður er Reykvíkingur, ólst upp í Hlíðunum þangað til hún varð 11 ára en þá flutti fjölskyldan í Vesturbæinn þar sem Fríða Sigríður býr enn. Hún lauk véla- og iðnaðarverkfræði frá HÍ og M.Sc

40 ára Fríða Sigríður er Reykvíkingur, ólst upp í Hlíðunum þangað til hún varð 11 ára en þá flutti fjölskyldan í Vesturbæinn þar sem Fríða Sigríður býr enn. Hún lauk véla- og iðnaðarverkfræði frá HÍ og M.Sc. gráðu í aðfangakeðjustjórnun (Supply Chain Management) frá Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg.

Fríða Sigríður er iðnaðarverkfræðingur og hefur unnið í tekjustýringu Icelandair, áhættustýringu Sjóvá og í stefnumótandi innkaupum hjá Marel. Nú starfar hún á Landspítalanum sem verkefnastjóri í Hringbrautarverkefninu.

„Við í Hringbrautarverkefninu erum ráðgjafar NLSH (Nýr Landspítali) þar sem unnið er að uppbyggingu húsnæðis, bygginga og innviða, fyrir Landspítala. Við vinnum með fjölmennum hópi starfsfólks á spítalanum og fylgjum eftir þörfum þeirrar mikilvægu starfsemi sem Landspítalinn sinnir. Samhliða er mikil vinna innan Landspítala við að þróa ferla og starfsemi sem við komum einnig að.“

Fríða Sigríður stundaði sellónám út menntaskólann og síðar söngnám. „Tónlist hefur alla tíð verið stór þáttur í lífi mínu og ég hef lengi sungið í kór, MR-kórnum og Háskólakórnum, og síðar Mótettukórnum. Það er yndislegt að vera í kór, skapandi og félagsskapurinn frábær.“ „Það má segja að mitt helsta áhugamál sé samvera með fjölskyldunni og góðum vinum. Ég er mikil fjölskyldukona og nýt þess að vera með strákunum mínum og manni. Einnig erum við mikið saman stórfjölskyldan.“ Svo er það útivera; göngutúrar, sund, skíði og stuttir hjólatúrar í borginni.

Fjölskylda

Maki Fríðu Sigríðar er Ólafur Sindri Helgason, f. 1981, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands. Synir þeirra eru Jóhann Helgi, f. 2015, og Sigurjón Magni, f. 2018. Foreldrar Fríðu Sigríðar eru hjónin Jóhann Sigurjónsson, f. 1952, ráðgjafi í utanríkisráðuneytinu og fv. forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og Helga Bragadóttir, f. 1954, arkitekt hjá Kanon arkitektum. Þau eru búsett í Reykjavík.