Selenskí forsetí sló sér upp vestra þótt stríðsþreytu gæti

Töluvert er skrifað um för Selenskís forseta Úkraínu til Bandaríkjanna. Ekki orð var þó sagt um hana fyrr en forsetinn var lagður af stað vestur í bandarískri flugvél og skiptust bandarískar herflugvélar á að veita henni sýnilegt skjól. Ekki var þó líklegt að Pútín teldi sig hafa upp úr því að granda flugvél forsetans og sitja þar með uppi með magnaðasta píslarvott samtímans, og háværar hótanir og kröfur um að Úkraínustríði yrði ekki lokið fyrr en forsetinn í Kreml færi frá.

Miklu var tjaldað til, bæði var Hvíta húsið allt með miklum hátíðarbrag og myndarskapur við móttökur var upp á það allra besta. Fjölmiðlar könnuðust við að enginn annar „heimsleiðtogi“ kallaði við núverandi aðstæður fram viðlíka spennu með heimsókn til Bandaríkjanna og forseti Úkraínu, lands í miklum og raunar óvæntum ógöngum, sem kölluðu á mikla samúð. Ekkert vantaði heldur upp á fagnaðarlætin í þinghúsinu er gesturinn gekk í salinn í sínum „herklæðum“, en Selenskí hefur komið sér upp einkennisbúningi sem er með mun hlédrægari brag en þeir sem liðs- og herforingjar hans nota. Minnir sá helst á skátaforingja, sem ekki hefur fengið heiðursmerki. En svo vel hefur leiðtoganum tekist upp frá fyrsta degi að allir vita hver er á ferð og flugi, og flytjandi ávörp í hverju þinghúsinu af öðru um strengi, og er vafalaust að þessi elja hefur skipt sköpum. En sjaldgæft er þó að forseti Úkraínu mæti í eigin persónu.

Bandaríska þingið tók svo sannarlega vel á móti Úkraínuforseta svo að ekki varð betur gert. Fagnaðareinkunn þessa mikla þings, þegar það tekur á móti gesti og sýnir honum þann heiður að fá að flytja þar ávarp, birtist gjarna í því, að þingmenn rísi þar úr sætum þegar ræðumanninum tekst best til. Og það vantaði ekkert upp á þetta nú. Var fullyrt í fréttum, að mælt á þennan mælikvarða hafi sárasjaldan orðið ríkulegri fagnaðarlæti en núna og getur Selenskí svo sannarlega vel við unað. Því er þó haldið fram að „stríðsþreytu“ gæti nú í Bandaríkjunum og fullyrt er að hún sé nú orðin mun meiri hjá þingmönnum úr röðum Repúblikanaflokks en hinna, þótt í þeim flokki sé enn mikill stuðningur við öflugar vopnasendingar, og þá sérstaklega í forystuliði flokksins. Enn er þó ekki opinberlega um þetta deilt á þingi svo neinu nemi.