Þessari mynd var dreift á samfélagsmiðlum af hópi þeirra sem héldu að bylting væri fram undan á vinnumarkaði. Síðar varð vik milli vina.
Þessari mynd var dreift á samfélagsmiðlum af hópi þeirra sem héldu að bylting væri fram undan á vinnumarkaði. Síðar varð vik milli vina.
Það líður varla sá dagur að forsvarsmenn stærstu stéttarfélaga landsins rati ekki í fréttir helstu fjölmiðla. Yfirleitt með gífuryrðum um að eitthvað í samfélaginu eigi að vera öðruvísi en það er í bland við úrelta og innantóma frasa um baráttu…

Það líður varla sá dagur að forsvarsmenn stærstu stéttarfélaga landsins rati ekki í fréttir helstu fjölmiðla. Yfirleitt með gífuryrðum um að eitthvað í samfélaginu eigi að vera öðruvísi en það er í bland við úrelta og innantóma frasa um baráttu öreiganna við auðvaldið og blammeringar í garð kapítalismans, sem þó hefur fært okkur mestu hagsæld í sögu mannkyns.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar eru mest áberandi í þessari orðræðu. Þau tala gjarnan í fyrirsögnum eins og sagt er, nota frasa og eru óspör á stóru orðin. Þau hafa vald til að valda miklum usla á vinnumarkaði og hóta því reglulega að valda miklu tjóni verði ekki farið að kröfum þeirra – sem oft snúast um eitthvað allt annað en skýrar kröfur á vinnumarkaði.

Það er þó ekki víst að félagsmenn hreyfinganna séu jafn hollir málstaðnum þegar á reynir. Það sést meðal annars á áhuga þeirra í kosningum um kjarasamningana.

Kjarasamningur VR við Samtök atvinnulífsins (SA) var samþykktur í síðustu viku, með 82% atkvæða þeirra sem á annað borð tóku þátt í kosningu um samninginn. Á kjörskrá voru rúmlega 39 þúsund félagsmenn VR en aðeins um 9.500 manns, rétt rúmlega 24%, sáu ástæðu til að taka þátt í kosningunni – sem var rafræn og tók heila viku. Svipaða sögu má segja af samningi Starfsgreinasambandsins við SA sem undirritaður var í byrjun desember. Tæplega 24 þúsund manns voru á kjörskrá en aðeins tæplega 4.000 sáu ástæðu til að kjósa um samninginn, eða um 16,5% félagsmanna.

Það gekk mikið á í aðdraganda kjarasamnings sem undirritaður var í apríl 2019, svonefndur Lífskjarasamningur. Þar var Efling fremst í flokki, þar sem formaðurinn hótaði því að valda miklu tjóni á atvinnulífinu með verkföllum og öðrum aðgerðum. Neyðin var þó ekki meiri en svo að aðeins um 10% félagsmanna tóku þátt í kosningu um samninginn, eða tæplega 2.000 manns.

Þetta áhugaleysi félagsmanna á kjarasamningum má fyrst og fremst rekja til þess að á Íslandi ríkir almenn hagsæld. Meginþorri launþega veit sem er að launakjör þeirra eru heilt yfir sanngjörn og eitthvað sem fyrirtæki ráða við. Orðræða þeirra forsvarsmanna verkalýðshreyfinga sem tala um annað fjúka því út í vindinn.